Innlent

Leyniskjöl: Ólafur sagður hafa lýst yfir stuðningi Íslands við arabísk málefni

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Forsetinn kannast ekki við að hafa fundað með sádískum embættismönnum.
Forsetinn kannast ekki við að hafa fundað með sádískum embættismönnum. Vísir/Vilhelm
Wikileaks hefur birt tugir þúsunda sendiráðsskjala frá Sádi arabíu. Í nokkrum skjalanna sem birt hafa verið er fjallað um Ísland. Þar er meðal annars fjallað um fund forseta Íslands með sendiherra ríkisins í Stokkhólmi árið 2013, sem forsetinn segir þó aldrei hafa farið fram.

Wikileaks hefur birt rúmlega 60 þúsund leynileg sendiráðsskjöl frá Sádi Arabíu. New York Times greinir frá því að engin stórmál komi fram í skjölunum en að þau gefi glögga mynd af því hvernig samskipti Sádi Arabíu við umheiminn virki.

Í sendiráðsgögnum Sádi Arabíu er fjallað um Ísland; meðal annars um fund Ólafs Ragnars Grímssonar forseta með sendiherra ríkisins í Stokkhólmi árið 2013. Þar er haft eftir Ólafi Ragnari að Ísland styddi öll arabísk málefni á alþjóðlegum vettvangi. Í samtalinu talaði forsetinn um hið mikla hlutverk sem Sádi Arabía hefur við að ná friði í heimshlutanum.

Í skjölunum kemur fram að Ólafur Ragnar hafi lýst yfir vilja til að heimsækja Sádi Arabíu og hvernig honum yrði heiður að því að hitta leiðtoga ríkisins og sádíska embættismenn til að ræða fleti á samvinnu landanna tveggja.

Stundin fjallaði um skjalið um helgina en það er birt á vefsíðu Wikileaks. Til stendur að birta enn fleiri skjöl á vefnum.

Í yfirlýsingu frá forsetaembættinu segir að Ólafur Ragnar hafi aldrei átt slíkan fund. Einu samskipti forsetans við fulltrúa Sádi Arabíu séu við núverandi sendiherra ríkisins þegar hann afhenti trúnaðarbréf sitt 3. mars síðastliðinn. Önnur samskipti við fyrirrennara sendiherrans hafi verið þegar þeir afhentu sín trúnaðarbréf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×