Enski boltinn

Gylfi Þór og félagar byrja næsta tímabil á heimavelli meistaranna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Ensku meistararnir í Chelsea munu byrja næsta tímabil í ensku úrvalsdeildinni á heimavelli á móti Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Swansea City en enska deildin gaf út leikjaröðun næsta tímabils í morgun.

Manchester City ferðast til West Brom í fyrstu umferðinni en stórleikur hennar er leikur Manchester United og Tottenham á Old Trafford. Arsenal tekur á móti West Ham, Liverpool spilar á útivelli á móti Stoke City.

Fyrsta umferðin hefst viku fyrr en á síðasta tímabili eða 8. ágúst næstkomandi vegna þess að Evrópukeppnin í Frakklandi mun hefjast 10. júní á næsta ári.

Meðal annarra leikja í fyrstu umferðinni eru leikir milli Newcastle og Southampton annarsvegar og Leicester og Sunderland hinsvegar.

Nýliðarnir þrír Bournemouth, Watford og Norwich mæta liðum Aston Villa, Everton og Crystal Palace í þeirri röð.

Það er hægt að nálgast alla leikina á næsta tímabili með því að smella á leikjasíðu BBC en það á sjálfsögðu eftir að færa væntanlega sjónvarpsleiki yfir á sunnudag og mánudag.

Manchester City tekur á móti Chelsea í annarri umferðinni og Liverpool-liðið heimsækir bæði Arsenal og Manchester United í fyrstu fimm umferðunum.

Gylfi Þór Sigurðsson spilar við Manchester United á heimavelli í síðasta deildarleiknum fyrir landsleikinn á móti Hollandi í september en í næsta leik á eftir landsleikjahléinu þá tekur Manchester United á móti Liverpool á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×