Innlent

Ríkisstjórnin vill jafna hlut kynjanna í fjölmiðlum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ríkisstjórnin stefnir að því að búið verði að útrýma kynbundnum launamun hér á landi árið 2022.
Ríkisstjórnin stefnir að því að búið verði að útrýma kynbundnum launamun hér á landi árið 2022. vísir/gva
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, kynnti í dag nokkur skref sem ríkisstjórnin hyggst taka í tilefni af átaki Sameinuðu þjóðanna HeForShe.

Fjallað er um málið á vefsíðu tímaritsins Time og segir þar að íslenska ríkisstjórnin stefni að því að búið verði að útrýma kynbundnum launamun hér á landi árið 2022.

Þá ætlar ríkisstjórnin að styðja við úttektir á stöðu kvenna í fjölmiðlum á Íslandi. Markmiðið er að hlutur kynjanna í fjölmiðlum verði orðinn jafn árið 2020.

Eins og staðan er í dag eru konur í minnihluta í stétt fjölmiðlamanna auk þess sem rannsóknir sýna að meira er talað við og fjallað um karla í fjölmiðlum hér á landi.

Auk þessa hét Sigmundur Davíð því að árið 2016 hefði einn af hverjum fimm karlmönnum á Íslandi lýst yfir stuðningi við HeForShe.

Þessi fyrirheit ríkisstjórnarinnar eru hluti af átaki UN Women sem kallast IMPACT 10x10x10. Tíu þjóðarleiðtogar, tíu forstjórar og tíu forsetar í háskólum víða um heim taka þátt í átakinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×