Innlent

Illugi svarar ekki fjölmiðlum en minnir á mikilvægi þeirra

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Illugi hefur ekki svarað margítrekuðum fyrirspurnum fjölmiðla síðustu vikur.
Illugi hefur ekki svarað margítrekuðum fyrirspurnum fjölmiðla síðustu vikur. Vísir/Daníel
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, tók þátt í umræðum ásamt kollegum sínum frá hinum Norðurlöndunum um mikilvægi fjölmiðla í almannaþágu í Færeyjum í dag. Þar ræddu þeir mikilvægi fjölmiðla til að styrkja lýðræðislega umræðu.

Illugi ásamt kollegum sínum.Mynd/Mennta- og menningarmálaráðuneytið
„Í niðurstöðum umræðnanna, sem ráðherrarnir sendu frá sér, segir m.a. að þeir leggi áherslu á mikilvægi þess að norrænir fjölmiðlar í almannaþágu í stafrænni framtíð, skuli áfram gegna mikilvægu hlutverki við að stuðla að og styrkja lýðræðislega umræðu í samfélögunum,“ segir um umræðurnar á vef ráðuneytisins.



Sjálfur hefur Illugi og pólitískur aðstoðarmaður hans Sigríður Hallgrímsdóttir sætt gagnrýni fyrir samskipti sín við íslenska fjölmiðla. Fréttamenn RÚV gagnrýndu til að mynda nýverið aðstoðarmann ráðherra fyrir óeðlileg ummæli í samskiptum við fréttastofuna.



Stundin fjallaði um það í gær að Illugi hefði ekki svarað sex fyrirspurnum fjölmiðilsins vegna Orku Energy og laxveiðiferðar sem greint hefur verið frá að ráðherrann hafi tekið þátt í á sama tíma og stjórnendur fyrirtækisins. 



Þá hefur fréttastofa Vísis sent aðstoðarmanni ráðherrans margítrekaðar beiðnir um viðtal vegna viðskipta Illuga við og með OG Capital, Hauk Harðarson og Orku Energy. Þeim fyrirspurnum hefur ekki verið svarað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×