Innlent

Erfitt að hafna fyrirtækjasamningum sem ganga að kröfum

Heimir Már Pétursson skrifar
Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins segir erfitt fyrir stéttarfélög innan sambandsins að standa gegn því að skrifa undir kjarasamninga þegar fyrirtæki gangi að launakröfum. Stéttarfélag Vesturlands hefur sagt sig úr samfloti sextán félaga vegna fyrirtækjasamninga.

Signý Jóhannesdóttir formaður Stéttarfélags Vesturlands segir það draga úr samstöðu sextán félaga innan Starfsgreinasambandsfélaganna sem verið hafa í verkfallsaðgerðum þegar sum verkalýðsfélög geri samninga við einstök fyrirtæki. Í raun séu þessi verkalýðsfélög umboðslaus þar sem þau hafi framselt samningsumboðið til Starfsgreinasambandsins. Því hafi verið samþykkt á samninganefndarfundi Stéttarfélags Vesturlands að draga samningsumboð sitt til baka.

„Og menn hafa jafnvel samið við fyrirtæki innan Samtaka atvinnulífsins sem ekki hafa umboð til að semja. Þeir hafa gengið yfir samningssvæði. Þetta eru bara vinnubrögð sem Stéttarfélag Vesturlands hefur ekki áhuga fyrir að stunda,“ segir Signý.

„Staðan hjá okkur er einfaldlega þannig að það er legið í öllum formönnum okkar aðildarfélaga að gera samninga og þeir hafa verið gerðir á mjög mörgum svæðum. Þegar fyrirtæki koma til félaganna og segja við erum tilbúin til að ganga að ykkar að ykkar kröfum. Við viljum það, hvar eigum við að skrifa undir, þá er mjög erfitt að standa gegn því,“ segir Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.

Hins vegar hafi ekki verið eining um þessi mál meðal stéttarfélaganna um hvort ganga eigi að samningum sem þessum. Stéttarfélögin hafi gefið samningsumboð sitt til Starfsgreinasambandsins en ráði sjálf sínum málum.

„Ég met það sem svo, þótt ég hafi ekki fullkomna yfirsýn yfir þessa samninga sem verið er að gera, þá met ég það sem svo að þeir séu ekki að þeirri stærðargráðu að það hafi áhrif,“ segir Drífa.

Þannig að samtakamátturinn er ekki að minnka við þetta?

„Nei, ég tel ekki,“ segir Drífa Snædal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×