Innlent

Óvarin tjörn við Kórinn: „Viljum forða því að hér verði alvarlegt slys“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jóna Guðrún hefur áhyggjur af ástandinu.
Jóna Guðrún hefur áhyggjur af ástandinu. Vísir
„Við foreldrar hér í hverfinu höfum mikið rætt saman um tjörn sem er hér í hverfinu algjörlega óvarin og stórhættuleg börnunum okkar,“ segir Jóna Guðrún Kristinsdóttir, 32 ára móðir og íbúi í Kórahverfi Kópavogsbæjar.

Hún segir að fjöldi foreldra í hverfinu hafa sent fyrirspurnir og ábendingar til bæjarins, þ.á.m. til bæjarstjóra en algjörlega án árangurs.

„Þessi tjörn er staðsett bak við íþróttahúsið Kórinn þar sem stór hluti barna úr hverfinu er við íþróttaiðkun. Við hinn enda tjarnarinnar standa svo hesthúsin sem börnin sækja gjarnan í og er þessi tjörn því mjög áhugaverð og sýnileg þeim börnum sem þar fara um.“

Á svæðinu hefur verið sett upp skilti með áletruninni „Varúð, hætta á drukknun, tjörnin er ekki leiksvæði“. Jón segir að skiltið veki enn frekari óhug foreldra í hverfinu.

„Þetta er augljóslega hættusvæði og bærinn veit greinilega af því. Við teljum það því gríðarlega vanrækslu af hálfu bæjarins að aðhafast ekkert í málinu eftir fjölda áskorana. Við sem foreldrar viljum forða því að hér verði alvarlegt slys líkt og í Hafnarfirði fyrir skömmu og byrgja þetta áður en kemur til slíkra hörmunga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×