Sport

Tyson hraunar yfir Mayweather: Hann er lítill maður og veruleikafirrtur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mike Tyson, fyrrverandi heimsmeistari í þungavigt, hefur einstakt lag á að búa til fyrirsagnir úr viðtölum þegar ekki einu sinni er verið að sækjast eftir þeim.

Tyson var tekinn í stutt spjall á MGM-hótelinu í Vegas þar sem milljarðabardagi Floyds Mayweathers og Manny Pacquiao fer fram á morgun.

Ekki var um að ræða neina stóra sjónvarpsstöð heldur Youtube-rásina Undisputed Champion Network. Spyrillinn vildi vita hvor væri sigurstranglegri.

„Fyrst taldi ég að Pacquiao myndi vinna, en þetta verður áhugavert,“ svaraði Tyson.

„Þetta verður góður bardagi, sama hver vinnur. Þeir eru báðir klárir í þetta og ég held þetta klárist með rothöggi. Bardaginn fer ekki í tólf lotur.“

Eftir að ræða stuttlega um stöðu þungavigtarinnar í dag var Tyson spurður út í ummæli Mayweathers á dögunum þar sem hann sagðist vera betri og merkari hnefaleikakappi en Muhammed Ali. Þá fyrst fór Tyson í gang.

„Hann er veruleikafirrtur,“ sagði Tyson. „Hlustaðu nú. Ef hann væri nálægt því að vera jafnstór og Ali gæti hann farið með börnin sín sjálfur í skólann.“

„Hann getur ekki farið einn með börnin sín í skólann og hann talar um sig sem merkan mann?“

„Hann er lítill og hræddur maður. Hann er mjög lítill og hræddur maður,“ sagði Mike Tyson.

Viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×