Fótbolti

Freyr: Framkvæmdum föstu leikatriðin illa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Freyr var ánægður með margt í leik Íslands á Algarve-mótinu.
Freyr var ánægður með margt í leik Íslands á Algarve-mótinu. mynd/ksí
Ísland tapaði fyrir heimsmeisturum Japans í leiknum um 9. sætið á Algarve-mótinu í Portúgal.



Íslenska liðið tapaði þremur af fjórum leikjum sínum á mótinu og skoraði ekki mark. Ísland tapaði fyrsta leik sínum gegn Sviss 2-0, þeim næsta 1-0 fyrir Noregi og gerði síðan markalaust jafntefli við Bandaríkjunum í lokaleik sínum í riðlinum á mánudaginn.

„Ég tek heilan helling frá þessu móti, fullt af jákvæðum hlutum og svo eru líka nokkur áhyggjuefni,“ sagði Freyr Alexandersson, þjálfari Íslands, í samtali við Vísi eftir leikinn gegn Japan.

„Eins og ég sagði fyrir mótið ætluðum við að reyna fá svör við því hvort við gætum blandað saman varnarafbrigðum, spilað lág- og hápressu í sama leiknum,“ sagði Freyr sem var ánægður með varnarleikinn á mótinu en Ísland hélt m.a. hreinu gegn stórliði Bandaríkjanna.

„Markið sem við fengum á okkur gegn Noregi var algjör katastrófa og ef gefum okkur það að við hefðum ekki verið á afturendanum þar þá spiluðum við nánast 180 mínútur án þess að fá á okkur mark gegn Noregi og Bandaríkjunum.

„Svo héldum við hreinu í fyrri hálfleiknum gekk Japan þar sem þær fengu bara eitt færi,“ sagði Freyr og bætti því við að japanska liðið hefði spilað frábærlega í seinni hálfleik og haft öll völd á vellinum.

Freyr var eðlilega ósáttur við markaleysið á mótinu og sagði að slök föst leikatriði hefðu orðið íslenska liðinu, að hluta til, að falli.

„Ég er auðvitað óánægður með að við skyldum ekki skora á mótinu. Ég er sérstaklega óánægður með föst leikatriði sem Ísland hefur allt verið sterkt í.

„Við framkvæmdum þau illa á mótinu,“ sagði landsliðsþjálfarinn og bætti því við að íslenska liðið spilaði sem betur fer ekki á hverjum degi á móti jafn sterkum liðum og á Algarve.

Íslenska liðið heldur heim á leið á morgun en næsta verkefni þess er vináttulandsleikur gegn Hollandi í Kórnum, laugardaginn 4. apríl.


Tengdar fréttir

Stjörnuliðið á móti Sviss | Margrét Lára byrjar á bekknum

Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, hefur tilkynnt byrjunarliðið sitt fyrir fyrsta leik liðsins á Algarve-mótinu í Portúgal og hann treystir mikið á fyrrum og núverandi leikmenn Íslandsmeistara Stjörnunnar.

Dagný: Man alveg hvað hún heitir

Rétt rúm fimm ár eru síðan Dagný Brynjarsdóttir þreytti frumraun sína með landsliðinu en fyrsti leikurinn var gegn stórliði Bandaríkjanna á Algarve-mótinu í Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×