Enski boltinn

Leikbann Evans útskýrt: Ógeðfelld framkoma

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jonny Evans, miðvörður Manchester United, var ekki með liðinu gegn Arsenal í bikarnum á mánudaginn og verður heldur ekki með um helgina þegar liðið tekur á móti Tottenham í úrvalsdeildinni.

Hann á enn eftir að taka út fimm leikja bann af þeim sex sem hann var úrskurðaður í fyrir að hrækja að Papiss Cissé, sóknarmanni Newcastle.

Sjá einnig:Evans í sex leikja bann fyrir hrákann

Þeir Evans og Cissé voru báðir kærðir af enska knattspyrnusambandinu fyrir að hrækja á hvorn annan. Cissé viðurkenndi brot sitt og fór rakleiðis í bann en Evans neitaði sök.

Aganefnd enska knattspyrnusambandsins hefur nú gefið út ástæðu þess eða útskýringu á leikbanni Evans.

„Myndbandsupptakan skipti öllu máli. Það sem var öllum ljóst þegar við horfðum á upptökuna var, að Evans hrækir klárlega niður á Cissé sem var að reyna að standa aftur á fætur,“ segir Brian Jones, formaður nefndarinnar.

„Það er líka alveg klárt að Evans horfir beint og mjög ákaft á Cissé. Hann setur stút á varirnar þegar hann nálgast Cissé.“

Sjá einnig:Cissé viðurkennir að hafa hrækt á Evans og fer í sjö leikja bann

„Sumir sýna Evans vorkunn en myndbandsupptakan sýnir hvað hann gerði. Hvaða maður sem er á götum úti myndi telja framkomu hans ógeðfellda og ekki boðlega í daglegu lífi. Hvað þá á fótboltavellinum.“

„Eftir langar og mjög ítarlegar umræður komst aganefndin að samróma niðurstöðu um að málið gegn Evans væri sannað,“ segir Brian Jones.

Þegar Evans hitti aganefndina vildi hann meina að það hefði ekki verið ætlun sín að hrækja á Cissé.

„Aðeins einn maður veit hvað hann ætlaði sér og það er herra Evans. Aganefndin getur ekki og á svo sannarlega ekki að giska á hvað hann ætlaði sér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×