Innlent

Ekið á rangan stað og enginn til að taka á móti honum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kallað var aftur á bíl frá ferðaþjónustunni sem hafi ekið honum á réttan stað sem ku vera á sömu lóð.
Kallað var aftur á bíl frá ferðaþjónustunni sem hafi ekið honum á réttan stað sem ku vera á sömu lóð. Vísir/Heiða
Mikið fatlaður maður var skilinn eftir á röngum stað og án þess að nokkur væri tilbúinn að taka á móti honum. Frá þessu greinir Bryndís Ingibjörg Björnsdóttir, móðir mannsins. Syni hennar, Þórði Guðlaugssyni, var ekið að Endurhæfingunni í Kópavogi í dag af ferðaþjónustu fatlaðra en þangað átti hann ekki að fara.

Frammistaða ferðaþjónustunnar hefur verið mikið til umræðu undanfarna viku eftir að þroskaskert stúlka gleymdist í bíl þjónustunnar í sjö tíma í liðinni viku. Var skipuð neyðarstjórn yfir ferðaþjónustu fatlaðra hjá Strætó til að fara yfir málið.

Bryndís segir í pósti á Facebook að Þórður hafi sem betur fer verið með síma og hafi þannig getað hringt í hana. Þá hafi starfsmaður haft samband við ferðaþjónustuna þannig að honum verði skutlað á réttan stað.

Móðirin segist vera orðin gráti nær. Hún hafi aldrei verið fyrir kvart né kvein en um sé að ræða dropann sem fylli mælinn.

Starfsmaður hjá Endurhæfingunni í Kópavogi staðfesti i samtali við Vísi að Þórði hefði verið ekið á rangan stað. Af þeim sökum var enginn á staðnum til að taka á móti Þórði.

Kallað var aftur á bíl frá ferðaþjónustunni sem hafi ekið honum á réttan stað sem ku vera á sömu lóð. Var Þórður hinn hressasti að sögn starfsmannsins og virtist ekki kippa sér upp við uppákomuna enda þekki hann vel til hjá endurhæfingunni.

Ekki hefur náðst í Ferðaþjónustu fatlaðra í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Rætt verður við Bryndísi í kvöldfréttum Stöðvar 2.


Tengdar fréttir

Allt fór úrskeiðis sem mögulegt var

Mál Ólafar Þorbjargar dregur dilk á eftir sér. Lögregla og Reykjavíkurborg gera úttekt á málinu. Bílstjórinn segist ætla að halda áfram að keyra fyrir ferðaþjónustu fatlaðra standi það til boða.

Svona týndist stúlkan

„Þetta er alveg hrikalega sorglegt atvik,“ segir eigandi fyrirtækisins sem sinnti akstri fyrir ferðaþjónustu fatlaðra í dag þar sem 18 ára þroskaskert stúlka týndist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×