Enski boltinn

Álpappírsbúningurinn algjör hörmung

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Burnley-menn fagna í silfraða búningnum.
Burnley-menn fagna í silfraða búningnum. vísir/getty
Nýliðar Burnley í ensku úrvalsdeildinni hafa vakið athygli fyrir skemmtilegan fótbolta á tímabilinu þó liðið sé í fallsæti eftir 25 umferðir.

Liðið hefur einnig vakið athygli fyrir áhugaverðan varabúning sem er silfraður á litinn, en honum hefur verið líkt við álpappír í enskum miðlum.

Steven Reid, leikmaður Burnley, er vægast sagt ekki hrifinn af því að spila í álpappírnum og ræddi varabúninginn í útvarpsviðtali á BBC í gær.

„Ef ég á að vera heiðarlegur þá spiluðum við í honum gegn Sunderland og vorum ömurlegir í þeim leik,“ sagði Reid.

Hann tók þó ekki fram að Burnley spilaði í silfraða búningnum gegn Manchester United á útivelli og átti meira skilið úr þeim leik en liðið fékk.

„Auðvitað kenni ég búningnum ekkert um frammistöðuna gegn Sunderland en hann er alveg ömurlegur. Búningastjórinn hefur mátt þola mikla stríðni undanfarnar vikur fyrir að velja hann. Vonandi verður þessi búningur ekki notaður á næstu leiktíð,“ sagði Steven Reid.

Þessi 33 ára gamli fyrrverandi írski landsliðsmaður þarf þó ekki að hafa of miklar áhyggjur af því að spila mikið í álpappírnum þar sem hann hefur aðeins komið fimm sinnum við sögu í 25 leikjum liðsins í úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×