Innlent

Mikilvægt að draga lærdóm af mistökum

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá fundi Velferðarsviðs Reykjavíkur í dag.
Frá fundi Velferðarsviðs Reykjavíkur í dag. Vísir/Ernir
„Það er ljóst að margt hefur farið úrskeiðis í framkvæmd og innleiðingu þeirra breytinga sem gerðar voru á þjónustunni um áramótin.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn Strætó bs. Þar segir einnig að verkefnið hafi reynst mun stærra og víðtækara en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi.

„Það er mikilvægt að dregin verði lærdómur af þeim mistökum sem hafa átt sér stað og tryggt að þau endurtaki sig ekki.“ Eigendavettvangur Strætó bs. fundaði í dag um málefni ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Vettvanginn skipa stjórn Strætó bs., bæjarstjórar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og borgarstjóri Reykjavíkur.

Þá segir í tilkynningunni að akstursþjónustan sé mikilvæg þjónusta sem að stór hópur íbúa reiði sig á til að komast leiðar sinnar á hverjum degi. Því sé gríðarlega mikilvægt að tryggja áreiðanleika hennar og öryggi, svo hægt sé að endurvinna traust notenda á þjónustunni.

„Markmið þeirra breytinga sem gerðar voru um áramótin er að bæta þjónustuna fyrir notendur, það er því mjög sorglegt að ekki hafi tekist betur til en raunin hefur orðið. Verkefnið framundan er að leiðrétta mistök og ná settum markmiðum,“ segir í tilkynningunni.

Sérstök neyðarstjórn

Í dag var ákveðið að stofna sérstaka sérstaka stjórn yfir ferðaþjónustu fatlaðs fólks og mun Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, stýra henni. Þar að auki verður stjórnin skipuð fulltrúum frá Öryrkjabandalaginu, Sjálfsbjörg og Þroskahjálp auk fulltrúa frá hverju sveitarfélagi fyrir sig sem eiga aðild að ferðaþjónustunni.

Meginhlutverk stjórnarinnar verður að tryggja „örugga og eðlilega þjónustu og framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðs fólks eins fljótt og kostur er.“ Þú hefur hún fullt umboð til að gera þær breytingar sem hún telur nauðsynlegar til að bæta úr þjónustu og framkvæmd.

Meginhlutverk stjórnarinnar verður að tryggja örugga og eðlilega þjónustu og framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðs fólks eins fljótt og kostur er.

Á fundinum var lagt til og samþykkt að eftirfarandi fulltrúar verði skipaðir í stjórnina: Þorkell Sigurlaugsson, Bryndís Haraldsdóttir, Guðlaug Kristjánsdóttir, Guðjón Erling Friðriksson, Tryggvi Friðjónsson, framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar, Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar og Ellen Calmon formaður Öryrkjabandalags Íslands og Stefán Eiríksson formaður stjórnar.

Starfsmaður stjórnarinnar verður Jóhannes Rúnarsson og hún hefur störf nú þegar.


Tengdar fréttir

Saka bílstjórann um vítavert gáleysi

Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands harma þann alvarlega atburð sem átti sér stað í gær hjá Akstursþjónustu Strætó b.s.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×