Innlent

Rafmagnslaust á Suðurnesjum

Birgir Olgeirsson skrifar
Rafmagnslaust varð um klukkan 13 í dag. Hér má sjá mynd af vettvangi.
Rafmagnslaust varð um klukkan 13 í dag. Hér má sjá mynd af vettvangi. Mynd/siggeir Pálsson
Rafmagnslaust varð á Suðurnesjum um eittleytið í dag eftir að Suðurnesjalína 1 datt út. Anna Lóa Ólafsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, segir í samtali við Vísi að allt rafmagn sé úti í Reykjanesbæ, Ásbrú, Sandgerði, Garði og sömuleiðis á Keflavíkurflugvelli.

„Hér veit fólk ekki neitt. Við erum búin að fá símtal frá flugvellinum, Ásbrú og það er allt rafmagnslaust. Líka í Sandgerði og Garði.“

Rafmagn er í Álverinu í Straumsvík samkvæmt upplýsingum frá Landsneti. Ekkert símasamband er í gegnum landlínu á Suðurnesjum en þó er gsm-samband.

Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er vararafstöð þar og starfsemin því með eðlilegum hætti þrátt fyrir rafmagnsleysið.

Sjá einnig:Leiðbeina flugvélum með ljósmerkjum

Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti sem bárust rétt fyrir klukkan tvö leysti línan út á Fitjum klukkan 13:06 og varð um leið straumlaust á öllu Reykjanesi. Ástæða bilunarinnar er að bárujárnsplata fauk á línuna og hangir föst á henni.

„Unnið er að viðgerð og vonast til að henni ljúki milli 14:30 og 15.  

Tenging Reykjaness við meginflutningskerfi raforku er einungis um þessa einu línu í dag og afhendingaröryggi því tengt ástandi línunnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×