Innlent

Varað við tannhvíttunarefnum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Á Íslandi má enginn nota þessi sterku efni nema tannlæknar,“ segir Kristín.
"Á Íslandi má enginn nota þessi sterku efni nema tannlæknar,“ segir Kristín. vísir/gva/getty
Sala á tannhvíttunarefni hefur færst mikið í aukana á undanförnum árum. Efnin eru að finna víða á veraldarvefnum, til dæmis á Facebook, og þar eru þau oftar en ekki seld af öðrum en viðurkenndum sérfræðingum. Kristín Heimisdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands, segir að tilefni sé til að vara við slíkum meðferðum. Efnin geti verið skaðleg og valdið ýmsum óþægindum, meðal annars í tannholdi.

„Þessi efni geta verið skaðleg sérstaklega ef eitthvað er að tönnunum eða tannholdsástandinu fyrir. Tennurnar þurfa að vera í fullkomnu standi, því ef þú ert með skemmd geta þessi sterku efni haft skaðleg áhrif. Á Íslandi má enginn nota þessi sterku efni nema tannlæknar,“ segir Kristín.

Lög á Íslandi og innan Evrópusambandsins kveða á um að tannlæknar og tannfræðingar megi einir nota vetnisperoxíð eða sambærileg efni sem er sterkara en 0,1 prósent, en vetnisperoxíð er algengt virkt efni í tannlýsingu. Snyrtistofur sem bjóða upp á tannlýsingu mega því einungis nota vetnisperoxíð með minna en 0,1 prósenta styrk.

„Slík efni virka lítið sem ekkert. Ef þú ferð á snyrtistofu og tennurnar lýsast þá er verið að nota efni sem eru sterkari en snyrtifræðingar mega nota. Ef það eru notuð ljós þá þurrka þau yfirleitt upp tennurnar þannig að þær verða hvítari í mjög stuttan tíma og svo gengur það aftur til baka.“

Kristín bendir á heilbrigðan lífsstíl til að viðhalda hvítum, heilbrigðum tönnum. „Í raun er bara best að átta sig á því að allt sem við setjum ofan í okkur hefur áhrif á tennurnar og öll tannhreinsun hefur jákvæð áhrif - ekki bara á heilsuna, heldur líka útlitið“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×