Innlent

Reyndi að komast úr landi þrisvar sinnum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn var handtekinn fyrr í mánuðinum þegar hann var að reyna að komast um borð í flutningaskip í Sundahöfn.
Maðurinn var handtekinn fyrr í mánuðinum þegar hann var að reyna að komast um borð í flutningaskip í Sundahöfn. Vísir/GVA
Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að hælisleitandi, sem synjað hefur verið um hæli hér á landi, skuli sæta gæsluvarðhaldi þar til hann verði sendur aftur til Finnlands, þaðan sem hann kom, en þó eigi lengur en til föstudagsins 23. janúar.

Forsaga málsins er sú að maðurinn gaf sig fram við lögreglu í ágúst síðastliðnum og óskaði eftir hæli hér. Áður en hann kom til Íslands hafði hann farið til Finnlands. Hælisbeiðni hans var ekki tekin til meðferðar hér og skyldi maðurinn því sendur aftur til Finnlands á grundvelli Dyflinnarreglunnar.

Til að tryggja framkvæmd þeirrar ákvörðunar að maðurinn skyldi sendur úr landi var honum gert að tilkynna sig til lögreglunnar á Suðurnesjum tvisvar á hverjum sólarhring og halda sig í Reykjanesbæ.

Maðurinn var svo handtekinn þann 5. janúar síðastliðinni, þar sem hann var að reyna að komast um borð í skip í Sundahöfn í Reykjavík. Hann hafði tvisvar áður reynt að komast um borð í fraktskip; í annað skiptið fannst hann í skipi sem komið var 180 sjómílur út af Reykjanesskaga.

Að auki grunar lögregla hann um þjófnað og þá hefur hann komið við sögu í átökum milli hælisleitenda í Reykjanesbæ.

Maðurinn hefur að mati lögreglu brotið gegn þeim skilyrðum sem honum hafi verið sett og hafi hann því verið handtekinn. Þá telji lögreglustjóri ástæðu til að ætla að maðurinn muni reyna að koma sér undan framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar um að vísa honum úr landi.

Dóm Hæstaréttar má sjá hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.