Innlent

Fann pabba sinn eftir 5 ára leit og foreldrarnir fundu ástina á ný

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
vísir
Bonnie Theophilus Colvin segir það ólýsanlega tilfinningu að finna foreldri sem maður hefur leitað lengi að; það sé í raun eins og að finna annan helminginn af sjálfri sér. Bonnie leitaði að pabba sínum í 5 ár og fann hann loks þegar hún var tvítug. Hún átti þó ekki von á því sem gerðist í kjölfarið.

Bonnie fæddist í Bandaríkjunum árið 1959. Hún á íslenska móður, Júlíönu Þorfinnsdóttur Colvin, og bandarískan föður, Roger Colvin. Þau kynntust í Offiseraklúbbnum á Keflavíkurflugvelli árið 1954 þar sem mamma hennar vann sem þjónn en pabbi hennar var í bandaríska hernum.

„Það var dansiball í klúbbnum og hljómsveit að spila. Mamma ákveður að fara og pabbi er sem sagt að spila á fiðlu í þessari hljómsveit. Hann kemur til mömmu í hléinu og býður henni upp í dans og svo var bara ekki aftur snúið,“ segir Bonnie um fyrstu kynni foreldra sinna. Níu ár voru á milli mömmu hennar og pabba, hún var þrítug og hann tvítugur þegar þau kynntust.

Bonnie með foreldrum sínum á skírnardegi dóttur sinnar 1980. Hún var þá nýbúin að hitta föður sinn í fyrsta skipti.Mynd/Bonnie
Ástin tók völdin

Bonnie segir það ekki hafa verið vel séð á þessum tíma að íslenskar konur væru með hermönnum.

„Þær voru umtalaðar stúlkurnar sem gerðu það en mamma lét það ekki á sig fá. Ástin tók bara völdin. Pabbi bað síðan mömmu og þau giftu sig í Reykjavík 1955. Stuttu síðar fluttu þau til Minnesota í Bandaríkjunum.“

Þau eignuðust son tveimur árum seinna en hann lést tveimur dögum eftir fæðingu þar sem það blæddi inn á heila hans í fæðingu.

„Þetta var auðvitað mikil sorg og stuttu síðar fara að koma brestir í hjónabandið. Mamma verður þó aftur ólétt, af mér, en herinn sendir pabba svo til Virginíu þegar mamma er komin nokkra mánuði á leið. Hún ákveður að vera um kyrrt í Minnesota. Þá er sambandið eiginlega búið en mamma ákveður samt að vera áfram með mig úti,“ segir Bonnie. Á meðan skrifast foreldrar hennar á en þegar mæðgurnar flytja svo til Íslands þegar Bonnie er 4 ára rofnar sambandið alveg.

Sjá einnig: Hefur leitað að íslenskri móður sinni í 20 ár.

Júlíana og Roger, foreldrar Bonniear, á brúðkaupsdaginn sinn í Reykjavík 1955.Mynd/Bonnie
Bjóst ekki við að komast í samband við pabba sinn

Bonnie segist hafa spurt mömmu sína um pabba sinn í gegnum bernskuna.

„Mamma sagði alltaf að hann hefði verið góður maður en sambandið fór bara eins og það fór og bréfaskriftirnar hættu. Hann fór eitthvert og hún vissi ekki hvert þannig að sambandið bara rofnaði. Mamma gleymdi honum samt aldrei, hún var alltaf ástfangin af honum. Hann var einfaldlega eini maðurinn í lífi hennar.“

Þegar Bonnie var 15 ára fór mamma hennar með hana út til Minnesota að heimsækja vinafólk. Þar hitti Bonnie íslenska vinkonu mömmu sinnar sem einnig hafði gifst bandarískum hermanni. Hún bað þau um að aðstoða sig við að hafa upp á pabba sínum.

„Það tók þó nokkuð langan tíma, eða um fimm ár. Þegar ég er um tvítugt fæ ég bréf frá konunni um að þau hafi fengið svar frá hernum varðandi bréf sem þau höfðu sent um leit mína að pabba. Herinn sagðist ekki geta gefið þeim eða mér upplýsingar um hvar pabbi væri en að þeir myndu koma upplýsingunum til hans um mig og að ég vildi komast í samband við hann. Ég bjóst við að það myndi aldrei neitt koma út úr því en annað kom á daginn.“

Sjá einnig: Átti eina mynd af föður sínum.

Mamma Bonniear með vinafólki sínu sem hjálpaði Bonnie að hafa upp á föður sínum.Mynd/Bonnie
Tilfinningaþrungið símtal

Bonnie heyrði svo frá pabba sínum stuttu seinna, eða rétt eftir áramót 1980, sem sagði að hann vildi hafa samband við hana. Hann sendi Bonnie símanúmerið sitt og hún hringdi í hann.

„Ég gleymi aldrei þessu fyrsta símtali. Við fórum bara bæði að gráta, tilfinningarnar báru okkur ofurliði. Þetta var alveg ótrúlegt, mér leið eins og ég hefði fundið hinn helminginn af sjálfri mér,“ segir Bonnie og það er augljóst að henni þykir nokkuð erfitt að tala um þessa tilfinningaþrungnu stund.

Í kjölfarið fara hún og pabbi hennar að skrifast á. Bonnie segir að í bréfunum þeirra hafi hann alltaf spurt um mömmu hennar.

„Hann biður svo á einhverjum tímapunkti um heimilisfangið hennar mömmu og þau fara að skrifast á. Hann spyr hana svo hvort hún vilji ekki að koma út og heimsækja sig, en mamma vann hjá Flugleiðum á þessum tíma og var á frímiða. Hún ákveður því að fara út þarna í júní 1980 og ætlar að vera í mánuð. Mér fannst það náttúrulega alveg frábært að hún skyldi vera að fara út að hitta hann.“

Bonnie ásamt foreldrum sínum og börnum.Mynd/Bonnie
„Ég ætla að giftast honum pabba þínum aftur!“

Þegar mamma hennar er búin að vera í Bandaríkjunum í um 10 daga hringir hún í dóttur sína með óvæntar fréttir.

„Hún segir við mig: „Bonnie mín, ég er með fréttir! Ég ætla að giftast honum pabba þínum aftur!“ Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið og spurði hvort hún væri viss um það sem hún væri að gera. Hún var nú aldeilis hrædd um það og sagðist alltaf hafa elskað hann. Pabbi hafði sjálfur verið í öðrum hjónaböndum en það hafði aldrei gengið,“ segir Bonnie.  

Mamma hennar ákveður að flytja til Bandaríkjanna en kemur til Íslands um sumarið til að ganga frá pappírum.

„Þegar hún kemur svo heim er ákveðið að pabbi muni koma líka í heimsókn um mánaðamótin ágúst-september. Hann gat þá verið viðstaddur skírn dóttur minnar sem fæddist um sumarið. Daginn sem hann kemur sat ég við eldhúsgluggann og beið eftir að þau kæmu heim en við mamma bjuggum á móti hvor annarri. Ég hafði náttúrulega aldrei séð pabba minn og ég var orðin svo rosalega spennt að sjá hann. Svo sé ég þegar þau koma labbandi hönd í hönd hleyp ég niður til að taka á móti þeim. Það var náttúrulega bara grenjað á gresjunni. Það var eins og við pabbi hefðum alltaf þekkst.“

Sjá einnig: Íslensk stúlka leitar uppruna síns.

Bonnie ásamt föður sínum í fyrra þegar hún og maðurinn hennar fóru og heimsóttu hann til Louisiana.Mynd/Bonnie
Þakklát fyrir að hafa fundið föður sinn

Foreldrar Bonniear fluttu til Louisiana þar sem þau bjuggu saman í 10 ár. Bonnie fór reglulega út í heimsókn til þeirra með börnunum sínum en hún á tvö börn með fyrri manni sínum, dóttur sem fædd er 1980 og son sem fæddur er 1985.

„Mamma er síðan komin með rosalega heimþrá þegar hún er búin að vera í 10 ár úti. Hún saknar ömmubarnanna en pabbi getur ekki hugsað sér að flytja til Íslands. Þau ákveða því að skilja og mamma flytur aftur heim. Það var samt allt í góðu og þau héldu sambandi alla tíð. Meira að segja þegar mamma var komin á elliheimili og var farin að kalka þá mundi hún eftir pabba. Þau hringdust alltaf reglulega á og mamma kvaddi hann alltaf með orðunum “I love you darling!” Þannig var hún líka farin að kveðja mig og barnabörnin þegar við heimsóttum hana á elliheimilið.“

Móðir Bonniear lést fyrir tveimur árum en pabbi hennar er enn á lífi og býr í Louisiana. Bonnie býr einnig í Bandaríkjunum í dag en hún, líkt og mamma hennar, kynntist bandarískum hermanni hér á landi. Hún flutti með honum út árið 1999 og hafa þau verið gift í 15 ár.

Bonnie fór með manninum sínum að heimsækja pabba sinn í fyrra en hún hafði þá ekki hitt hann í fjöldamörg ár. Hún segir ferðunum til Bandaríkjanna hafa fækkað mikið eftir að mamma hennar flutti til Íslands og það voru því fagnaðarfundir þegar feðginin hittust á ný.

„Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fundið pabba og það er auðvitað yndislegt að foreldrar mínir hafi fengið 10 góð ár saman,” segir Bonnie að lokum.


Tengdar fréttir

Hefur leitað að íslenskri móður sinni í 20 ár

Árið 1958 fæddi 18 ára gömul íslensk stúlka son í New Jersey í Bandaríkjunum. Hún gaf hann til ættleiðingar þar í landi en Jonathan Roth hefur lengi leitað að íslenskri móður sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×