Innlent

Fluttur á sjúkrahús með 30 pakkningar af MDMA innvortis

Bjarki Ármannsson skrifar
Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú málið en ekki er vitað hvort maðurinn hafi verið einn að verki.
Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú málið en ekki er vitað hvort maðurinn hafi verið einn að verki. Vísir/Vilhelm/GVA
Karlmaður á fertugsaldri var handtekinn á Keflavíkurflugvelli þann 2. janúar síðastliðinn með um 280 grömm af MDMA í meltingarvegi og endaþarmi. Við komu til landsins frá Þýskalandi fannst lítilræði af amfetamíni í fórum hans og játaði hann við yfirheyrslu að hann hefði fíkniefni innvortis.

Fréttastofa RÚV greindi fyrst frá. Lögreglan á Suðurnesjum hefur málið til rannsóknar en maðurinn var látinn laus úr gæsluvarðhaldi fyrir helgi. Guðmundur Baldursson, fulltrúi embættisins, staðfestir þetta í samtali við Vísi. Guðmundur segir að um íslenskan karlmann sé að ræða sem áður hefur komið við sögu lögreglu.

„Jú, hann hefur lítillega komið við sögu áður,“ segir Guðmundur. Maðurinn hafi þó ekki áður verið grunaður um aðild að fíkniefnasmygli. Ekki er vitað að svo stöddu hvort hann hafi verið einn að verki eða hvort um svokallað burðardýr sé að ræða.

Pakkningarnar skiluðu sér á fimm dögum

Illa gekk að ná fíkniefnunum úr líkama mannsins. Alls hafði hann þrjátíu pakkningar í endaþarmi og meltingarvegi, sem allar skiluðu sér að lokum.

„Við sendum hann á sjúkrahús, vegna þess að við höfðum grun um að pakkningarnar væru kannski orðnar eitthvað lélegar,“ segir Guðmundur. Maðurinn var á sjúkrahúsi í nokkra daga en er nú frjáls sinna ferða. Fimm dagar liðu frá handtöku og þar til allar pakkningarnar höfðu skilað sér.

Guðmundur segir að það standi ekki til að krefjast frekara gæsluvarðhalds yfir manninum að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×