Innlent

Vonast til að umræðan um jafnréttismál fari af stað meðal karla

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Gunnar Bragi segir að viðbrögðin við ráðstefnunni hafi verið býsna góð.
Gunnar Bragi segir að viðbrögðin við ráðstefnunni hafi verið býsna góð. Vísir/Daníel
 „Mér sýnist vera ágætis þátttaka og stemningin er bara góð,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, en Rakarastofuráðstefnan sem Ísland stendur að hófst í New York núna klukkan 18, eða klukkan 13 að staðartíma. Á ráðstefnunni koma karlar saman og ræða jafnréttismál, málefni kvenna og ofbeldi gegn þeim. Fulltrúar frá um 100 þjóðum sækja ráðstefnuna.

Aðspurður hvað hann vonist til að kom út úr ráðstefnunni segir Gunnar Bragi:

„Í fyrsta lagi vonumst við að sjálfsögðu til þess að umræðan fari af stað á meðal karla um jafnréttismálin og ég hef alla trú á því að það takist að einhverju leyti, í það minnsta. Síðan erum við að þessu til að sýna stuðning við verkefnið He For She, sem er nú orðið nokkuð þekkt og Íslendingar hafa sýnt töluvert mikinn áhuga, og við vonumst til þess að fleiri muni gera það. Svo vonumst við til þess að ef þetta „konsept“ tekst hjá okkur að þá sé hægt að taka það lengra, kannski í smærri útgáfu eða hvernig sem það verður.“

Gunnar Bragi segir að viðbrögðin við ráðstefnunni hafi verið býsna góð. Hann hafi meðal annars farið til London og rætt við þarlenda fjölmiðla til að kynna ráðstefnuna. Þá var hann í viðtali á Al-Jazeera-sjónvarpsstöðinni í gær.

„Mér sýnist að við munum allavega ná að vekja athygli á málinu og jafnvel taka það eitthvað lengra. Síðan hefur Ísland vakið töluverða athygli líka út af stöðu okkar þegar kemur að jafnréttismálum, þó að við getum vissulega gert betur á ýmsum sviðum, þá stöndum við ágætlega, þannig að þetta er allt saman jákvætt.“

Fylgjast má með ráðstefnunni í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×