Innlent

Óvissa um framtíð byggðar í Grímsey

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sjávarútvegur er undirstaða atvinnulífs í Grímsey.
Sjávarútvegur er undirstaða atvinnulífs í Grímsey. Vísir/Björn
Óvissa ríkir um framtíð byggðar í Grímsey þar sem Íslandsbanki hefur viðrað þá hugmynd að kvóti verði seldur úr eynni svo útgerðarmenn geti greitt skuldir sínar.

Að því er fram kemur á vefsíðu Akureyrar vikublaðs hefur bankinn ítrekað lengt í lánum þeirra sem eiga kvóta í Grímsey en nú þarf að gera upp.

Þetta staðfestir Gunnar Hannesson, útgerðarmaður í eynni:

„Já, bankinn er að ganga á okkur og það gæti farið svo að við myndum þurfa að selja allavega hluta af kvótanum til að geta borgað skuldirnar.“

Gunnar segir að hann, líkt og aðrir eyjarskeggjar, hafi miklar áhyggjur af stöðunni sem upp er komin enda er sjávarútvegur undirstaða atvinnulífs í bænum.  

Um 80 manns búa í Grímsey en eyjan er hluti af Akureyrarbæ. Bærinn hefur fundað seinustu vikur ásamt bankanum, Byggðastofnun, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar og heimamönnum til að finna lausn á vandanum en án árangurs.

Því verður boðað til borgarafundar í Grímsey fljótlega þar sem farið verður yfir stöðu mála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×