Innlent

Rakarastofuráðstefnu lokið í New York

Heimir Már Pétursson skrifar
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, segir jafnrétti ekki vera einkamál kvenna heldur varða okkur öll. Í ávarpi á rakarastofuráðstefnu hjá Sameinuðu þjóðunum í dag sagði Vigdís nauðsynlegt að fræða fólk um jafnréttismál allt frá blautu barnsbeini.

Tveggja daga rakarastofuráðstefnu sem Ísland og Súrínam standa sameiginlega að hjá Sameinuðu þjóðunum í New York lauk fyrir skemmstu með blaðamannafundi í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. En ráðstefnunni er ætlað að vekja karla til umhugsunar um jafnréttismál og til aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi um allan heim.

Vigdís ávarpaði ráðstefnuna í dag af myndbandi og sagði mikilvægt að karlar kæmu saman á þessum vettvangi til að virkja drengi og menn í umræðunni um jafnrétti kynjanna.

„En jafnrétti er ekki mál kvenna. Það er mál sem varðar okkur öll. Það er mál  sem varðar mannréttindi. Samfélögin sem heild njóta ávaxtanna, pólitískt, félagslega og efnahagslega. Þetta er ekki spurning um að gefa eða taka. Jafnrétti kynjanna er einfaldlega gott fyrir okkur öll,” sagði Vigdís meðal annars í ávarpi sínu.

Fjölmargir ávörpuðu ráðstefnuna og greindu frá reynslu sinni, meðal annars Magnús Scheving, generáll í ástralska hernum sem og sendimenn um 100 ríkja og fréttakonur frá alþjóðlegum sjónvarpsstöðvum eins og CNN og Al Jazeera.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra er ánægður með ráðstefnuna og segir vel hafa tekist til. Yfir hundrað sendimenn annarra ríkja hafi tekið þátt í ráðstefnunni og greint frá reynslu sinni, ásamt fleirum. Menn hafi opnað sig ófeimnir um þessi mál og vonandi taki aðir upp boltan og hafi áhrif á umræðuna í sínum heimalöndum en framtakið hafi vakið mikla athygli.

„Og það eitt og sér er jákvætt og fær karlmenn vonandi til að hugsa um málin. En svo er þetta vitanlega, og það er mikilvægt, stuðningur okkar við framtakið He for She sem UN Women standa fyrir. Þau eru mjög þakklát fyrir þetta framtak okkar. Mæta hér vel fulltrúar UN Women og He for She. Þannig að við getum ekki annð en verið sátt við þetta og vonandi skilar þetta tilætluðum árangri,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×