Innlent

Dæmi um alvarleg áhrif gasmengunar á heilsu

Svavar Hávarðsson skrifar
Myndin er tekin 20. september þegar mengunin krafðist þess að jarðvísindamenn verðu sig öllum stundum - jafnvel á keyrslu meðfram gosstöðvunum.
Myndin er tekin 20. september þegar mengunin krafðist þess að jarðvísindamenn verðu sig öllum stundum - jafnvel á keyrslu meðfram gosstöðvunum. Mynd/Magnús Tumi
„Það voru tvö tilvik með lögreglumenn sem misstu að kalla meðvitund eftir að hafa andað gasinu að sér. Svo hefur reynt mjög á minn mannskap þarna uppfrá, það er rétt,“ segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur á Jarðvísindastofnun, um þá niðurstöðu í eftirliti sóttvarnalæknis á heilsufari að nokkrir einstaklingar urðu fyrir alvarlegum heilsufarsáhrifum á meðan þeir dvöldu við gosstöðvarnar í Holuhrauni.

Frá því að eldsumbrotin hófust í lok ágúst má einnig merkja aukningu á ýmsum einkennum frá öndunarvegi hjá fólki víða um land - aðallega á Austurlandi.

Ármann lýsir aðstæðum þannig að þegar gasinu hefur slegið yfir menn í stuttan tíma fái þeir áköf hóstaköst og jafni sig ekki fyrr en að nokkrum dögum liðnum, og bætir við að enn skilar eldstöðin gríðarmiklu magni ennþá af brennisteinsdíoxíði.

Um eftirlit um heilsufarsáhrifin segir: „Eftirlit sóttvarnalæknis á heilsufari bendir til aukningar á ýmsum einkennum frá öndunarvegum einstaklinga víða um land þann tíma sem gosið hefur staðið miðað við undanfarin ár, einkum á Austurlandi. Engin alvarleg heilsufarsáhrif má þó rekja til gossins nema hjá nokkrum einstaklingum sem staddir voru við gosstöðvarnar sjálfar.“

Þórólfur Guðnason, yfirlæknir á sóttvarnasviði Embættis landlæknis, staðfestir að vísað er til vandamála sem komið hafa upp hjá jarðvísindamönnum og þeim sem hafa sinnt eftirliti á staðnum. „En ekki er um alvarlegar eftirstöðvar að ræða vegna þessa eða varanleg einkenni,“ segir Þórólfur. „Þetta er það sem vitað er að getur gerst þegar styrkurinn er eins gríðarlegur og raun ber vitni við eldstöðina. Það er vegna þessa sem menn eru hræddir við að opna fyrir umferð þarna uppeftir,“ segir Þórólfur en slær þann varnagla að erfitt sé að segja til um hvort tilfelli sem þessi geta gert vart um sig síðar meir. „Ég myndi þó halda ekki, ef menn eru aðeins stuttan tíma í þessu gasi.“

Spurður um aukningu á einkennum frá öndunarfærum fólks víða um land segir Þórólfur að þetta sjáist bæði á meiri sölu asmalyfja og út frá sjúkdómsgreiningum frá heilsugæslustöðvum. „Ekki sé þó hægt að geirnegla að gasmengun frá gosinu sé um að kenna, en um marktæka aukningu sé að ræða nákvæmlega þá mánuði sem gosið hefur staðið yfir - eða frá 31. ágúst í fyrra.

Þórólfur segir þessar niðurstöður allrar athygli verðar og nákvæmari heilsufarsrannsókn, sem er fyrirhuguð, greini frekar hvernig í málinu liggur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×