Innlent

Ókeypis í lyftur og heitt kakó í brekkunum

Bjarki Ármannsson skrifar
Opið verður í öllum helstu skíðasvæðum landsins í dag.
Opið verður í öllum helstu skíðasvæðum landsins í dag. Vísir/Vilhelm
Í dag er alþjóðlegi snjódagurinn og skíðasvæði víða um landið bjóða upp á skemmtilega dagskrá í brekkunum. Í Bláfjöllum stíga hljómsveitin Munstur og Eyjólfur Kristjánsson á svið, ókeypis skíða- og brettakennsla verður í boði hluta dags og ókeypis kakó og KitKat á meðan birgðir endast. Opnað verður tíu en mögulega þarf að loka fyrr í dag vegna veðurs.

Í Hlíðarfjalli á Akureyri verður ókeypis í fjallið fyrir börn og tuttugu prósent afsláttur í skíðaleigunni. Einnig verður haldinn ratleikur milli eitt og hálfþrjú og heitt kakó á könnunni frá eitt til þrjú. Það verður svo ókeypis fyrir alla í Böggvisstaðafjall og opnar þar klukkan ellefu.

Sjálfur Íþróttaálfurinn mætir á skíðasvæði Ísafjarðarbæjar um klukkan eitt en þar verða einnig léttar veitingar í boði og ókeypis kennsla frá klukkan hálfeitt.

Á skíðasvæðinu á Siglufirði verður „kakó og með því“ fyrir alla og ókeypis búnaður og í lyftur fyrir börn yngri en sautján ára.  

Sömuleiðis verður opið í Stafdal, ókeypis í lyftur fyrir átján ára og yngri og kakó í boði ásamt fleira skemmtilegu í tilefni dagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×