Innlent

„Þið eruð orðnir umboðslausir“

Bjarki Ármannsson skrifar
Ásmundur Einar Daðason
Ásmundur Einar Daðason
Þau voru heldur betur skrautleg, lokin á umræðum þingflokksformannanna í þættinum Sprengisandi í morgun. Sigurjón M. Egilsson þáttastjórnandi kom þá varla að orði eftir að fulltrúar stjórnarandstöðunnar brugðust ókvæða við fullyrðingum Ásmundar Einars Daðasonar Framsóknarmanns um að „biturleika“ gætti meðal stjórnarandstöðunnar vegna árangurs ríkisstjórnarinnar.

Þessi ummæli Ásmundar komu í kjölfar líflegrar umræðu um aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu, sem þingmenn stjórnarflokkanna vilja margir draga til baka. Birgitta Jónsdóttir, sem mætti fyrir hönd Pírata í stað Helga Hrafns Gunnarssonar þingflokksformanns, var einna helst ósátt með ummælin eins og heyra má í spilaranum hér fyrir ofan (ummæli Ásmundar hefjast eftir um eina klukkustund, 24 mínútur og tíu sekúndur).

„Þið eruð orðnir umboðslausir“

„Ég held að við verðum vör við það hérna að það er ofsalegur biturleiki í stjórnarandstöðunni,“ sagði Ásmundur Einar en lengra komst hann ekki áður en gripið var fram í fyrir honum.

„Hvaða vitleysa er þetta?“ spurði Birgitta Jónsdóttir. „Meiri þvælan, Ásmundur Einar.“

Ásmundur: „Við erum að horfa upp á það að landið er á góðri siglingu - “

Birgitta: „Og er maður bitur yfir því? Ertu að segja að við séum á móti því að það gangi vel?“

Ásmundur: „Mikið jákvætt er að gerast víða í atvinnulífinu, það verður tekið á þrotabúum föllnu bankanna af ríkisstjórn sem mun láta almenning þar í fyrsta sæti - “

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar: „Og allt endurspeglast þetta í fylgi Framsóknarflokksins.“

Birgitta: „Algjörlega! Þið eruð orðnir umboðslausir.“

Horfa má á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×