Innlent

Þrír hjartalæknar sögðu upp störfum fyrir áramót

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Biðlistar eftir aðgerðum á hjartadeild hafa lengst verulega vegna verkfalla lækna.
Biðlistar eftir aðgerðum á hjartadeild hafa lengst verulega vegna verkfalla lækna. Vísir/GVA
Þrír hjartalæknar sögðu upp störfum á Landspítalanum nú fyrir áramót. Uppsagnir þeirra taka að óbreyttu gildi í mars og apríl. Um er að ræða sérfræðinga í hjartaþræðingum og sérfræðing sem sér um að gera brennsluaðgerðir við hjartsláttartruflunum.

Gestur Þorgeirsson, yfirlæknir á hjartadeild, segir afskaplega slæmt ef að uppsagnir þessara lækna taka gildi. Til að mynda sé læknirinn sem geri brennsluaðgerðirnar í raun sá eini á landinu sem geri sérhæfðustu aðgerðirnar.

„Ég vona nú í lengstu að lög að af þessu verði ekki og ef að samningar takast í kjaradeilu okkar við ríkið að þá muni það gefa mönnum tilefni til að endurskoða hug sinn,“ segir Gestur í samtali við Vísi.

Gestur Þorgeirsson, yfirlæknir hjartadeildar Landspítalans.Vísir/GVA
Gestur segir að mönnun á hjartadeild hafi verið á mörkunum síðustu misseri og jafnvel seinustu ár:

„Álagið hefur verið mikið og um tíma voru engir unglæknar hjá okkur í vinnu. Því lagðist mun meiri vinna á sérfræðinga deildarinnar.“

Læknadeilan hafi svo einnig haft áhrif og hafa biðlistar eftir aðgerðum á hjartadeild lengst verulega vegna hennar.

Aðspurður hvort hann telji að menn grípi til slíkra örþrifaráða því þeir sjái ekki aðra leið út úr ástandinu segir Gestur:

„Ég held að það sé verið að þrýsta á um að bæta kjörin. Menn sjá einfaldlega að það eru ekki nægilega margir nýir sérfræðingar að koma heim til að það myndi bæta ástandið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×