Innlent

94 prósent Íslendinga vilja að ríkið verji meira fé til heilbrigðismála

ingvar haraldsson skrifar
Vísir/stefán/vilhelm
„Það er mjög sláandi hvað félagslegt heilbrigðiskerfi hefur mikinn stuðning hjá þjóðinni. Yfirgnæfandi meirihluti til þjóðarinnar vill aukið fé til heilbrigðismála,“ segir Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

94 prósent Íslendinga telja að hið opinbera ætti að verji meira fé til heilbrigðismála samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Samkvæmt könnuninni telja 4,8 prósent að verja ætti óbreyttu fé til heilbrigðismála en 1,1 prósent telur að það verja ætti minna fé til heilbrigðismála af hálfu hins opinbera.

„Þá vill mikill meirihluti að hið opinbera reki heilbrigðiskerfi,“ segir Rúnar en 81,1 prósent svarenda í könnuninni sem gerð var í mars og apríl árið 2013 telja að hið opinbera ætti fyrst og fremst að reka heilbrigðisþjónustu. 18,4 prósent töldu að þjónustan ætti að vera rekin til jafns af einkaaðilum og hinu opinbera. Þá töldu 0,5 prósent svarenda að einkaaðilar ættu fyrst og fremst að reka heilbrigðisþjónustu.

Munur milli kynja, tekjuhópa og landshluta

Rúnar segir merkjanlegan mun á afstöðu ákveðinna hópa samfélagsins á hverjir eigi að reka heilbrigðisþjónustu. „Ákveðnir hópar styðja síður opinberan rekstur í heilbrigðisþjónustu. Það eru karlar frekar en konur, hátekjufólk og langskólagengnir og íbúar á Reykjavíkursvæðinu samanborið við landsbyggðina,“ segir Rúnar.

Þá kom einnig í ljós í rannsókninni að þeir sem síður töldu sig þurftu á þjónustu voru ólíklegri til að styðja opinberan rekstur heilbrigðisþjónustu.

Sjálfstæðismenn eru ólíklegastir til að styðja opinberan rekstur heilbrigðisþjónustunnar.
Rúnar segir greinanlegan mun á afstöðu fólks eftir pólitískum skoðunum. „Þeir sem lýsa sig sem hægri sinnuðum og þeir sem styðja Sjálfstæðisflokkinn vilja síður að hið opinbera reki heilbrigðisþjónustuna.“

„Þó er meirihluti sjálfstæðismanna sem telur að hið opinbera eigi að reka heilbrigðisþjónustu en hlutfallið er lægra en hjá öðrum hópum,“ segir Rúnar en tæplega 60 prósent Sjálfstæðismanna telja að heilbrigðisþjónustan ætti fyrst og fremst að vera rekin af hinu opinbera. Stuðningur þeirra sem segjast kjósa aðra flokka mældist milli 82 og 91 prósent.

Rúnar segir að ekki hafi verið merkjanlegur munur á afstöðu fólks eftir aldri né hvort það ynni hjá hinu opinbera eða í einkageiranum. Þá hafi þeir sem borgi hærri skattprósentu fremur verið fylgjandi rekstri hins opinbera í heilbrigðisþjónustu. 

Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vill að hið opinbera verji meira fé til heilbrigðismála



Fleiri fréttir

Sjá meira


×