Innlent

Ekki sýnt fram á samband milli háhitasvæða og krabbameins

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Helgi Sigurðsson prófessor í krabbameinslækningum segir ekki tilefni til að hafa áhyggjur af  aukinni tíðni krabbameins á háhitasvæðum í kjölfar nýrrar rannsóknar. Það sé ekki hægt að tengja saman aukna tíðni krabbameins í Hveragerði við háhitasvæði, þar búi til að fjölmenna fjölskylda sem beri gen sem valdi sjölfaldri hættu á brjóstakrabbameini og krabbameini í blöðruhálsi. Rannsakendum hafi verið greint frá alvarlegum valvillum ári áður en þeir kynntu niðurstöður sínar.

Stöð tvö greindi í vikunni frá niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem er hluti af doktorsritgerð Aðalbjargar Kristbjörnsdóttur lýðheilsufræðings um að fólk sem býr á háhitasvæðum eigi frekar á hættu að fá krabbamein en fólk sem býr á svokölluðum köldum svæðum. Þá séu krabbameinin oft illvígari og dánartíðni hærri.

Berklar og bárujárn

Helgi Sigurðsson segir að í rannsókninni sé verið að bera saman epli og appelsínur. Auðvitað skipti umhverfisþættir stundum máli en oftast virðist vera hrein tilviljun hverjir fái krabbamein.  Í Hveragerði sé jarðhiti en að tengja það krabbameini á þessum forsendum sé jafn fáránlegt og að tengja saman berkla og bárujárn.

„Það eru alvarlegar valvillur í þessari rannsókn. Til að setja það í samhengi, get ég sagt að fyrr á árum, sáu menn samhengi milli berkla og bárujárns. Eftir því sem menn fóru að nota meira af bárujárni jókst tíðni berkla. Auðvitað var ekkert samhengi þar á milli, þetta voru í raun fáránleg tengsl.  Eftir að konur fóru að nota nælonsokka, sáu menn umtalsmikla aukningu á lungnakrabbameini. Nælonsokkarnir voru samt ekki að valda lungnakrabbameini, heldur reyktu konur í nælonsokkum frekar en aðrar konur.“

Helgi segir að mjög sennilega sé svona breyta á bak við það sem menn séu að sjá í Hveragerði. Hann segir að í Hveragerði sé vitað um fjölskyldur með áhættugen fyrir krabbameini. Þar á meðal sé langfjölmennasta fjölskyldan á Íslandi sem beri áhættugen, það valdi sjölfaldri áhættu á krabbameini, meðal annars í brjóstum og blöðruhálsi. Því sé ekki hægt að fullyrða neitt um aukna tíðni krabbameins á háhitasvæðum út frá þessum niðurstöðum. Þvert á móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×