Alls hafa liðlega 6000 manns boðað komu sína á mótmælin en Sara telur þann mikla fjölda útskýrast af gríðarlegri óánægju í samfélaginu.

Þrátt fyrir að mótmælin hafi enga formlega yfirskrift segir Sara að krafan sé skýr – að núverandi ríkisstjórn fari frá völdum.
„Þó svo að það sé kannski ekki raunsætt þá eru það samt okkar skýlausu skilaboð sem og krafan um gagngerar kerfisbreytingar. Því þó svo að það komi nýtt fólk inn þá er kerfið sem við búum við ennþá meingallað. Það er er ekkert verið að gera í þessum málum og það þarf aktíva vinnu til að breyta því,“ segir Sara.
Mótmælunum, sem hefjast klukkan 17 á morgun, verður stýrt af Söru en auk hennar munu þrír ræðumenn taka til máls og þá verða einnig tónlistaratriði til að brjóta upp dagskrána.
Sara hvetur fólk að koma með lykla eða hvað það sem fólk telur geta myndað hávaða og að klæða sig vel, það sé spáð hráslagalegu veðri; sjö stiga hita og súld.
„Smá rigning ætti ekki að stöðva byltinguna,“ segir Sara Elísa Þórðardóttir.