Innlent

Vesturbyggð hefur selt um tuttugu og fimm íbúðir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Patreksfjörður Íbúum í Vesturbyggð er að fjölga á ný.
Patreksfjörður Íbúum í Vesturbyggð er að fjölga á ný. Fréttablaðið/Egill
Vandi sveitarfélaga vegna íbúða sem standa auðar um lengri tíma heyrir sögunni til. Áður var þetta töluvert vandamál, einkum á Vestfjörðum. Þetta sýna niðurstöður könnunar á leiguíbúðum sveitarfélaga sem velferðarráðuneytið birti í gær.

Eitt af þeim sveitarfélögum sem hafa glímt við þennan vanda er Vesturbyggð. Þegar Fréttablaðið náði tali af Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra var hún að skrifa undir samning um sölu á einni íbúðinni.

„Vesturbyggð átti rúmlega fimmtíu íbúðir þegar mest var. Þá var nú selt og fyrir fjórum árum voru þetta svona 45 íbúðir. Nú á sveitarfélagið 27 íbúðir,“ segir hún. Sveitarfélagið hafi því selt mikið að undanförnu.

Ásthildur Sturludóttir
Atvinnulífið að eflast

„Það var þannig að það voru nokkrar íbúðir sem voru óíbúðarhæfar og við gerðum þær upp, löguðum þær til og settum þær í útleigu, því það varð fljótlega mikil eftirspurn. En við viljum reyna að losna við sem flestar íbúðir því þetta er og hefur verið gríðarlegur baggi á sveitarfélaginu. Þetta er mjög skuldsett,“ segir Ásthildur.

Þrátt fyrir að vel hafi gengið að selja segir Ásthildur reksturinn áfram þungan og fasteignaverðið lágt. „9 milljónir eru ekki hátt verð fyrir nærri 100 fermetra. En fasteignaverðið er að færast hratt upp á við. Fjölgun íbúa hefur verið það mikil að það er erfitt með húsnæði.“

Hún segir að ástæða íbúafjölgunar sé fyrst og fremst sú að atvinnulífið sé að eflast og verða fjölbreyttara. Nýjustu tölur segir Ásthildur sýna 986 íbúa í Vesturbyggð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.