Innlent

Enn fleiri skemmtiferðaskip næsta sumar

Andri Ólafsson skrifar
Royal Princess í Reykjavík.
Royal Princess í Reykjavík. Fréttablaðið/Ernir
Þegar er búið að bóka komu fleiri skemmtiferðaskipa til Reykjavíkur næsta sumar en hafa komið allt þetta ár samanlagt. Þetta segir Ágúst Ágústsson markaðsstjóri Faxaflóahafna.

Alls hafa 97 skip bókað komu sína næsta sumar en níutíu eru bókuð allt þetta ár. Farþegum skemmtiferðaskipa heldur þar af leiðandi áfram að fjölga, þeir voru tæplega tíu þúsund árið 1990 en verða um eitt hundrað þúsund á þessu ári.

Stjórn Faxaflóahafna ræddi á mánudag þróun og möguleika í tengslum við þjónustu við skemmtiferðarskip.

Kom fram að unnið sé að þrenns konar markmiðum þegar kemur að skemmtiferðaskipum með það fyrir augum að auka tekjur. Í fyrsta lagi að lengja dvöl skipanna hér á landi.

Í öðru lagi að hvetja til þess að skipin skipti um farþega í Reykjavík og stoppi þar af leiðandi lengur. Og í þriðja lagi að fjölga hringsiglingum um Ísland með viðkomu í fimm til sjö höfnum fyrir hvert skip.

Að sögn Ágústs markaðsstjóra er þetta mikilvægt og tekur hann sem dæmi að í sumar stoppuðu aðeins 25 af 90 skipum yfir nótt í Reykjavík. Aðeins tíu skip skiptu um farþega.

Tekjur af skemmtiferðaskipum skipta Faxaflóahafnir miklu. Áætla má að hvert skip skili þremur til fjórum milljónum króna í hafnargjöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×