Innlent

Sex hundruð missa atvinnuleysisbætur um áramótin

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Ríkið ætlar að spara á annan milljarð með því að stytta þann tíma sem fólk getur fengið atvinnuleysisbætur. Þeir sem detta út af bótum og fá ekki vinnu fá framfærslustyrk frá sveitarfélögunum.
Ríkið ætlar að spara á annan milljarð með því að stytta þann tíma sem fólk getur fengið atvinnuleysisbætur. Þeir sem detta út af bótum og fá ekki vinnu fá framfærslustyrk frá sveitarfélögunum. Fréttablaðið/hörður
Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að spara 1,1 milljarð króna á næsta ári með því að stytta bótatímabil atvinnulausra úr þremur árum í tvö og hálft ár um næstu áramót.

Samkvæmt samantekt Vinnumálastofnunar þýðir það að 623 missa rétt sinn til bóta og detta út af skránni á einu bretti um áramótin en að jafnaði hafa á milli 80 og 90 atvinnulausir fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta í hverjum mánuði á þessu ári.

Vinnumálastofnun áætlar að 900 til 1.000 einstaklingar hafi eða muni fullnýta rétt sinn til atvinnuleysisbóta á þessu ári.

Fjölmennasti aldurshópurinn sem tapar bótarétti er fólk á milli 30 og 40 ára, eða 190 manns, þar af eru konur mun fjölmennari, eða 124. Þegar menntun hópsins í heild er skoðuð kemur í ljós að 285 hafa lokið grunnskólaprófi, næstfjölmennasti hópurinn sem tapar bótarétti um áramót eru háskólamenntaðir, eða 135 manns.

Þeir sem missa rétt til atvinnuleysisbóta eiga rétt á framfærslustyrk frá sínu sveitarfélagi, hann ræðst þó af félagslegri stöðu viðkomandi og hvort hann á maka sem getur eða vill hafa viðkomandi á framfæri.

Sveitarfélögin eru ekki sátt við að fá allan þennan fjölda yfir til sín um áramótin. „Þetta er ansi bratt,“ segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og bendir á að það sé ansi stutt síðan bótarétturinn var styttur úr fjórum árum í þrjú. Hann segir að verið sé að færa kostnað frá ríkinu til sveitarfélaganna. „Við viljum að það verði farið í atvinnuátak til að mæta þessu. Þetta er þvinguð verkefnafærsla á milli ríkis og sveitarfélaga,“ segir Halldór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×