Innlent

Forstjórinn ætlar að láta rífa bústaðinn

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Sumarhúsið í Riðvík sem er nýlega klætt að utan verður fjarlægt ásamt stóru bátaskýli sem reist var 1998.
Sumarhúsið í Riðvík sem er nýlega klætt að utan verður fjarlægt ásamt stóru bátaskýli sem reist var 1998. Fréttablaðið/Pjetur
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, segir að sumarbústaður fyrirtækisins við Þingvallavatn verði rifinn. Þetta kemur fram í grein sem Bjarni ritar í Fréttablaðið í dag.

Um er að ræða svokallaðan forstjórabústað Orkuveitunnar í Riðvík við Þingvallavatn í landi Nesjavalla sem Hitaveita Reykjavíkur keypti árið 1964.

„Jörðinni fylgdi lítill sumarbústaður í Riðvík og hefur hann stundum verið kallaður forstjórabústaðurinn innan Orkuveitunnar. Að auki eru þar tíu aðrir sumarbústaðir í einkaeigu meðfram vatnsbakkanum.

Einkabústaðirnir standa á leigulandi úr Nesjavallajörðinni,“ segir Bjarni.

Eins og fram hefur komið fól stjórn Orkuveitunnar í júní Bjarna „að leita til að ljúka nýtingu landsins undir sumarhús“. Var þar með hætt við ákvörðun frá því 2011 um að selja leigulóðirnar undir sumarbústöðum einkaaðilanna. Bjarni segir að við nánari skoðun hafi verið talið óráðlegt að Orkuveitan missti forræði yfir svæðinu til frambúðar.

„Ég þekki ekki notkunarsögu bústaðarins í Riðvík en nafngiftin bendir til þess að hann hafi verið notaður af forstjórum Orkuveitunnar að einhverju marki eða að þeir hafi haft ráðstöfunarrétt yfir honum,“ segir Bjarni. Fréttablaðið hefur ekki fengið skýr svör frá Orkuveitunni um notkun á bústaðnum að undanförnu.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
Þá rifjar Bjarni upp að ný stjórn hafi tekið við Orkuveitunni 2010 og ráðið nýjan forstjóra til hálfs árs. „Tóku nýja stjórnin og forstjórinn meðal annars þá ákvörðun að afnema öll sérréttindi stjórnenda í Orkuveitunni. Einkaafnot eða forgangur að húseignum Orkuveitunnar heyrðu þar undir,“ skrifar Bjarni sem sjálfur hóf störf í Orkuveitunni 1. mars 2011.

„Ákvæði um einkaafnot mín af bústaðnum í Riðvík er ekki að finna í ráðningarsamningi og vissi ég ekki á þeim tíma að bústaðurinn væri til. Sú hugmynd var rædd um þetta leyti að afhenda starfsmannafélagi Orkuveitunnar bústaðinn til útleigu fyrir félagsmenn. Bústaðurinn stendur á viðkvæmu vatnsverndarsvæði sem útilokaði þá hugmynd,“ skrifar Bjarni.

Viðræður við eigendur sumarhúsanna á leigulóðunum standa enn. „Ljóst er að það mun taka nokkurn tíma að ná endanlegu markmiði og þarf Orkuveitan að huga að góðu meðalhófi í framgöngu,“ segir forstjórinn og bætir við: „Bústaður Orkuveitunnar í Riðvík stendur næst vatnsbólinu á Grámel og því mun hann víkja fyrstur en ákveðið hefur verið að rífa hann næsta sumar.“


Tengdar fréttir

Orkuveituforstjóri hefur bústað við Þingvallavatn til umráða

Þótt Orkuveitan hafi í kjölfar hrunsins keppst við að grynnka á skuldum með því að selja eignir sem ekki tengjast rekstrinum er sumarhús við Þingvallavatn sem ætlað er forstjóranum ekki á söluskrá. Húsið er sagt lítið notað sökum ástands en lítur samt óað

"Forstjórabústaður“ Orkuveitunnar og umhverfismál Nesjavallavirkjunar

Fréttablaðið og Stöð 2 hafa undanfarna daga fjallað um svokallaðan forstjórabústað Orkuveitu Reykjavíkur við Þingvallavatn og um þá ákvörðun stjórnar Orkuveitunnar, sem tekin var í lok júní síðastliðnum, "að leita leiða til að ljúka nýtingu landsins undir sumarhús“ eins og segir orðrétt í fundargerð.

Hefur ekki komið í bústaðinn í tvö ár

Upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar segir að bústaðurinn hafi lítið sem ekkert verið notaður undanfarin ár vegna þess hversu slæmu ástandi hann er í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×