Hljómsveitarstjórinn Andrew Litton stýrir upphafstónleikum á nýju starfsári Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu í kvöld. Litton hefur lengi verið meðal virtustu hljómsveitarstjóra Bandaríkjanna. Hann hefur meðal annars hlotið Grammy-verðlaun fyrir samvinnu sína við Bryn Terfel og hefur hljóðritað um 120 geisladiska.
Litton hefur auk þess um árabil verið aðalstjórnandi Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Bergen.
Einsöngvari á tónleikunum er suðurafríska sópransöngkonan Golda Schultz. Hún nam við hinn víðkunna Juilliard-tónlistarskóla í New York og hefur á undanförnum árum hlotið góðar viðtökur fyrir söng sinn.
Á efnisskránni eru Brentano-söngvar frá 1918 og Ævintýri Ugluspegils eftir Richard Strauss og að lokum flytur hljómsveitin sjöundu sinfóníu Beethovens.
