Innlent

Heyrnarlausir mótmæla kostnaði

Snærós Sindradóttir skrifar
Kolbrún Stefánsdóttir er framkvæmdastjóri Heyrnarhjálpar.
Kolbrún Stefánsdóttir er framkvæmdastjóri Heyrnarhjálpar.
Stjórn Heyrnarhjálpar – félags heyrnarskertra á Íslandi hefur sent frá sér ályktun vegna hækkandi kostnaðar við kaup á heyrnartækjum.

Segir í ályktuninni að stjórnin hafi af því verulegar áhyggjur að kostnaðurinn standi þeim sem þurfa á heyrnartækjum að halda fyrir þrifum og komi í veg fyrir að þeir endurnýi tæki sín eða fái sér heyrnartæki. Það takmarki verulega þátttöku heyrnarskertra í samfélaginu.

Niðurgreiðslan er núna 30.800 krónur á tæki.

Að sögn Kolbrúnar Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Heyrnarhjálpar, geta heyrnartæki kostað á bilinu 150 til 500 þúsund krónur. „Það er mjög algengt að fólk segi að það hafi ekki efni á því að kaupa sér tæki,“ segir Kolbrún.

Samkvæmt ályktuninni hefur niðurgreiðsla vegna kaupa á heyrnartækjum staðið óbreytt síðan árið 2006 í krónum talið. Á sama tíma hafi hækkun á almennu verðlagi orðið um 60 prósent og því sé útlagður kostnaður hvers einstaklings verulega aukinn. Stjórnin segist sérstaklega hafa áhyggjur af tekjulágum hópum samfélagsins.

Vegna þessa skorar stjórn Heyrnarhjálpar á stjórnvöld að bregðast við vandanum og hækka verulega greiðsluþátttöku ríkisins í tækjakaupum heyrnaskertra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×