Innlent

Hafnarfjörður fer fram á forkaupsrétt

Snærós Sindradóttir skrifar
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstýra hafnarfjarðar
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstýra hafnarfjarðar mynd/aðsend
Hafnarfjarðarbær hefur tekið til athugunar hvort Stálskipum ehf. hafi verið óheimilt að selja frystitogarann Þór HF og færa aflahlutdeild hans á fimm önnur skip, án þess að bærinn nyti forkaupsréttar. Frystitogarinn hefur verið seldur til Rússlands.

Bæjarráð Hafnarfjarðar hefur falið bæjarstjóra að gera ráðstafanir til að virkja forkaupsrétt bæjarins.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri segir að líklegt sé að bærinn muni leita réttar síns fyrir dómstólum, „Við teljum ljóst að ekki hafi verið farið að lögum.“

hafnarfjarðarhöfn Það er nóg að gera í Hafnarfirði. Hér er verið að landa 900 kílóum af lýsu. fréttablaðið/GVA
Bærinn mun á næstu dögum skila inn áliti sínu til ráðuneytisins um hvort salan hafi áhrif á atvinnulíf í bænum.

„Þetta er framsal á aflaheimildum sem er mjög stór hluti af þeim aflaheimildum sem tilheyra fyrirtækjum í bænum og við erum að missa af tækifærum í uppbyggingu í sjávarútvegi vegna þessa,“ segir Guðrún.

Fari svo að fallist verði á forkaupsrétt Hafnarfjarðarbæjar hefur bærinn heimild til að hnekkja sölu skipsins. Guðrún segir að fyrirtæki og einstaklingar innan bæjarins hafi lýst yfir áhuga á að kaupa skipið og aflahlutdeildir sem því fylgja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×