Lífið

Vinsælir í Póllandi

Ugla Egilsdóttir skrifar
Ryan Karazija og Logi Guðmundsson.
Ryan Karazija og Logi Guðmundsson. MYND/EDIT ÓMARSDÓTTIR
„Síðasta platan okkar lagðist vel í tónlistarunnendur í Póllandi, þannig að það má segja að við eigum vinsældum að fagna þar,“ segir Ryan Karazija, höfuðpaur hljómsveitarinnar Low Roar, sem hyggur á tónleikaferðalag til Póllands og Þýskalands í mars.

„Við höfum aldrei komið til Póllands áður, og vissum fyrst ekki hvað við vorum að fara út í, en það er uppselt á helminginn af tónleikunum nú þegar.“ Tónleikarnir í Póllandi verða níu talsins. „Minnstu tónleikarnir eru fyrir um 200-300 manns. Þar sem við fljúgum í gegnum Berlín ákváðum við að halda tónleika þar í leiðinni.“

Með Ryan í hljómsveitinni eru tveir Íslendingar, þeir Logi Guðmundsson og Leifur Björnsson. „Ég kynntist Leifi í gegnum Mike Lindsay, sem er líka í hljómsveitinni, og Loga í gegnum sameiginlega vini.“ Ryan flutti til Íslands frá San Francisco fyrir þremur árum. „Low Roar hefur gefið út eina plötu og önnur platan bíður útgáfu. Sigurlaug Gísladóttir spilar á nýju plötunni og stelpurnar í Amiinu líka.“

Low Roar heldur tónleika í Mengi á laugardaginn klukkan 21, áður en haldið er út í heim. Aðgangseyrir á tónleikana eru 2.000 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×