Lífið

Akureyri breytist í skíða- og brettaþorp

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Keppendurnir eru miklir ofurhugar og sýna listir sem eru sjaldséðar hér á landi.
Keppendurnir eru miklir ofurhugar og sýna listir sem eru sjaldséðar hér á landi. mynd/einkasafn
„Það eru nokkrir af þekktustu skíða- og brettaköppum heimsins væntanlegir hingað til lands á Iceland Winter Games, þetta verður svakaleg hátíð,“ segir Davíð Rúnar Gunnarsson, viðburðastjóri hjá Viðburðastofu Norðurlands, sem stendur fyrir vetrarleikunum Iceland Winter Games.

Hingað til lands eru að koma menn á borð við PK Hunder sem er frá Noregi en hann er í þrettánda sæti heimslistans í Free Skiing. Þess má til gamans geta að Hunder er einmitt að fara keppa á Vetrarólympíuleikunum sem hefjast á föstudaginn. Þá kemur Aleksander Aurdal einnig hingað og er hann í 39. sæti á heimslistanum, hann er einnig frá Noregi. Fleiri þekktir Free Skiing-kappar eru einnig væntanlegir.

PK Hunder er ákaflega virtur Free Skiing-kappi en hann keppir á Iceland Winter Games leikunum í mars.mynd/einkasafn
Á Iceland Winter Games verður einnig keppt á snjóbrettum og eru stórstjörnur væntanlegar í þeirri grein. Marcus Kleveland, Mons Roisland, Petr Horak og Piot Janosz eru þar á meðal keppenda.

„Mons Roisland var í þriðja sæti á Burton European Open-mótinu. Marcus Kleveland er talinn vera besti fjórtán ára snjóbrettakappinn í heiminum og varð hann í áttunda sæti á sama móti. Hann var meira að segja að keppa í fullorðinsflokki sem er fimmtán ára og eldri og var því að keppa upp fyrir sig,“ útskýrir Davíð Rúnar.

Það koma ekki bara skíða- og brettakeppendur hingað til lands því Snow kiting-kapparnir Magnus Almås Parmann og Kristina Blomhoff Johansen eru einnig væntanlegir og ætla láta sig svífa yfir Akureyri. „Þau eru á skíðum og brettum, með litla fallhlíf og svífa því um. Þau ætla að svífa um bæinn og í Hlíðarfjalli,“ segir Davíð Rúnar léttur í lundu.

Þá er matvælafyrirtækið Norðlenska að þróa sérhannaðar Iceland Winter Games-pylsur. „Það verður öllu umturnað í bænum og þessar sérhönnuðu pylsur eru ekki það eina sem upp á verður að bjóða. Það verður margt annað um að vera og á skemmtistöðum bæjarins verða þekkt tónlistaratriði.“ Páll Óskar og fleiri þekktir listamenn koma fram á skemmtunum í tengslum við hátíðina. „Dj Margeir sér svo um stuðið í fjallinu á meðan á hátíðinni stendur.“

Hér fyrir neðan má sjá myndbönd af nokkrum keppendum sem koma fram á Iceland Winter Games sem fram fara 6. til 9. mars næstkomandi.

Vake 2012 Teaser Team Fluid from Magnus Parmann on Vimeo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×