Umræddum jeppa var keyrt um á miklum hraða og spólaði hann víða.
„Það eru bændur sem að hafa þessa undanþágu samkvæmt reglugerð til að komast í smölun. Jeppakarlar og ferðamenn nýta sér þetta tækifæri oft,“ segir Ágúst í samtali við Vísi.
Landið var friðlýst árið 1979 og á vef Umhverfisstofnunar segir að það hafi verið gert til að hindra spjöll á náttúru eða röskun á svip landsins.
„Gestir svæðisins eru beðnir um að virða umgengnisreglur friðlandsins og leggja þannig sitt af mörkum svo að tilgangi friðlýsingar verði náð, þannig að allir bæði við og afkomendur okkar, fái notið náttúru friðlandsins til fullnustu,“ segir á vef UST.
„Ég var með mínum félögum í gönguferð um svæðið þegar við urðum vitni að þessu. Öll vorum við mjög sjokkeruð yfir því hvernig þetta var. Okkur finnst að þegar menn fá þetta einstaka leyfi að keyra þarna um, eigi menn aðeins að sitja á sér. Sérstaklega þar sem þetta er nú friðland,“ segir Ágúst.
Hann telur að utanvegaakstur á Íslandi fari minnkandi. Umfjöllun fjölmiðla undanfarið um utanvegaakstur gefi ekki rétta mynd af stöðu mála.
„En svörtu sauðirnir skemma fyrir hinum, sem eru bara að njóta náttúrunnar og bera virðingu fyrir náttúrunni,“ segir Ágúst og bætir við:
„Sá sem gerði þetta á skilið að sjást. Ég setti myndir af þessu á Facebook. Þar var einn jeppakarl alveg brjálaður og sagði þetta ekki skipta neinu máli. Þarna flæddi yfir og sporin myndu hverfa yfir veturinn. Það er þó ekki alveg svoleiðis því hann er að keyra yfir gróið svæði líka.“