Innlent

Segir jafnréttisbaráttuna hafa skilað betri lífsgæðum

Randver Kári Randversson skrifar
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. Vísir/Vilhelm
„Jafnréttisbarátta kvenna hefur skilað okkur svo miklu, hún hefur skilað okkur öllum sem búum hér á Íslandi og í hinum vestræna heimi auknum lífsgæðum.Og hún hefur auðveldað öðrum minnihlutahópum að sækja sín mannréttindi, sem er alveg ofboðslega jákvætt líka,“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Í dag er kvennadagurinn, en á þessum degi árið 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Af því tilefni ræddi Eygló Harðardóttir jafnréttismál í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Eygló segir að þótt ýmislegt hafi áunnist sé jafnréttisbaráttunni hvergi nærri lokið. „Það er fullt af verkefnum. Við erum ekki ennþá búin að útrýma kynbundnum launamun. Stórt skref í því er að losa okkur við þessi karla og kvenna störf, þannig að það verði bara til störf. “

Jafnframt telur Eygló að takast þurfi á við kynbundið ofbeldi og rannsaka þurfi hvers vegna karlar séu í meirihluta gerenda. Þetta sé fullkomlega óásættanlegt. Í því sambandi hefur hún áhyggjur af klámvæðingu í samfélaginu.„Mér finnst það til dæmis verulegt áhyggjuefni að sjá tölur sem segja það að ungir íslenskir drengir horfi meira á klám heldur en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndunum. Það er eitt af því sem jafnréttisbaráttan ætti að vera taka á.“

Hún  segir jafnréttisbaráttuna snúast um fyrst og fremst um jafnrétti kynjanna. „Höfum það í huga að þetta snýst um jafnrétti kynjanna, ekki jafnrétti kvenna eða það að tryggja stöðu karla,“ segir Eygló.

Eygló skrifar grein í Fréttablaðið í tilefni kvennadagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×