Enski boltinn

Mancini: City hagaði sér eins og Júdas

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mancini er ekki sáttur við vinnubrögð City
Mancini er ekki sáttur við vinnubrögð City vísir/getty
Roberto Mancini fyrrverandi knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Manchester City segir forráðamenn liðsins hafa hagað sér eins og Júdas gagnvart sér á síðustu leiktíð þegar hann var enn stjóri liðsins.

Mancini var rekinn í maí og var Manuel Pellegrini ráðinn í hans stað. Ítalinn segir að Txiki Begiriastain og Ferran Soriano yfirmaður knattspyrnumála hjá City hafi rætt við aðra knattspyrnustjóra mánuðum áður en hann var rekinn.

„Ég þekki margt fólk í fótboltanum og ég frétti eftir á að þeir hafi rætt við þrjá eða fjóra knattspyrnustjóra í febrúar, mars og apríl,“ sagði Mancini við breska götublaðið The Sun.

„Ég veit að þeir töluðu við Pep Guardiola og Carlo Ancelotti. Þetta er sama fólkið og ég settist niður með til matar fyrir bikarúrslitaleikinn.

„Þeir höguðu sér eins og Júdas. Ég treysti Khaldoon al-Mubarak stjórnarformanninum 100% en ekki hinum. Hann elti væntanlega bara.

„Sumir hafa ekki hugrekki til að mæta fólki augnliti til augnlitis. Meira að segja Khaldoon sagði mér ekki hvað var í gangi. Hann gat ekki komið til mín og sagt ´við áttum fjögur ár saman, við unnum allt og vorum ánægðir en nú er starfi þínu lokið´,“ sagði Mancini mjög ósáttur.

„Þess í stað unnu þeir fyrir aftan bakið á mér og ráku mig þegar tveir leikir voru eftir af mótinu. Ég gat ekki einu sinni kvatt stuðningsmenn Manchester City almennilega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×