Innlent

Guðrún frá Lundi gaf aðfluttu sveitafólki sveitina sína

Gissur Sigurðsson skrifar
Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum.
Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum. Vísir/Vilhelm
Bókin Afdalabarn eftir Guðrúnu frá Lundi er nú í fyrsta sæti á metsölulista Eymundsson verslana og er sömuleiðis söluhá hjá öðrum bóksölum. Rúm 60 ár eru síðan að bókin kom út og varð hún þá líka metsölubók.

Bókin var endurútgefin um síðustu mánaðamót og hefur þegar tekið flugið upp sölulistana. Guðrún frá Lundi var metsöluhöfundur á Íslandi á þriðja aldarfjórðungi síðustu aldar þótt bókmenntafræðingar hafi keppst við að gera lítið úr skrifum hennar.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum, hefur leitað skýringa á vinsældum bóka Guðrúnar. Bæði fyrir hálfri öld og svo aftur núna.

„Á sínum tíma held ég að Guðrún frá Lundi hafi orðið svo rosalega vinsæl af því að eiginlega allir bæjar- og borgarbúar voru aðfluttir sveitamenn. Þeir vildu lesa um sveitina sem var og hún gaf þeim hana,“ segir Dagný.

„En hún var líka ofsalega góður og mikill sagnameistari, spann saman flókna fræði í læsilega sögu með sterkum persónum og dramatík. Fólk féll fyrir þessu og menn rifu út bækurnar hennar.“

Rifjar Dagný upp að sú saga hafi gengið að sjúklingur einn hafi sagst ekki vera tilbúinn að deyja fyrr en hann hefði lesið nýjustu bók Guðrúnar.

En hvað ætli skýri þennan áhuga í dag?

„Ég held það séu bara sömu sagnatöfrar og áður. Fólk sér þarna breiðar epískar flottar sögur.“

Guðrún frá lundi var 59 ára þegar hún gaf út fyrstu bók sína árið 1946 en alls urðu bækur hennar 27. Var hún orðin 86 ára þegar hún skrifaði síðustu bókina. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×