Enski boltinn

Katrín ætlar að reyna við þrennuna í Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Ómarsdóttir fagnar hér titlinum með liðsfélögum sínum í Liverpool.
Katrín Ómarsdóttir fagnar hér titlinum með liðsfélögum sínum í Liverpool. Vísir/Getty
Katrín Ómarsdóttir hefur gert framlengt samning sinn við enska úrvalsdeildarliðið Liverpool og spilar því áfram í Bítlaborginni á næsta tímabili. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Katrín hefur orðið Englandsmeistari bæði árin sín með Liverpool sem eru jafnframt einu Englandsmeistaratitlar Liverpool FC undanfarin 24 ár.

„Mér finnst ég samt geta gert betur og það er gaman að vera að vinna titla en finnast maður geta gert betur," sagði Katrín Ómarsdóttir í viðtali við Sindra Sverrisson í Morgunblaðinu í dag.

Þrátt fyrir velgengni stelpnanna þá fá þær ekki að spila á Anfield-leikvanginum nema á hátíðarstundum.

„Það sem ég er helst ósátt við er að við spilum á rúgbý-velli sem er í tuttugu mínútna akstursfjarlægð frá borginni. Fólk hefur alveg áhuga á að mæta en nennir því mun síður en ef völlurinn væri í bænum," sagði Katrín í fyrrnefndu viðtali.

Katrín og liðsfélagar hennar fengu samt að labba um Anfield með meistarabikarinn í hendi þegar karlaliðið mætti Hull á dögunum.

„Það stóðu allir upp fyrir okkur, ekki bara Liverpool-stuningsmenn heldur líka stuðningsmenn Hull. Þarna stóðu allir og klöppuðu á meðan við löbbuðum hringinn. Þetta var algjör gæsahúðarstund," sagði Katrín við Sindra.

Stelpurnar fengu að labba heiðurshring á Anfield.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×