Tveir dómaranna í málinu dæmdu Agli í óhag en Ólafur Börkur Þorvaldsson dómari skilaði sératkvæði og taldi Egil eiga rétt á bótum vegna ummæla og myndbirtingar Inga Kristjáns.

Tilefni ummæla þeirra Inga Kristjáns og Sunnu Ben var nauðgunarákæra á hendur Agli í desember 2011. Ríkissaksóknari ákvað í júní 2012 að ekki væri ástæða til að sækja málið. Egill neitaði alltaf sök. Fór Egill í kjölfarið í viðtal hjá Monitor sem fór fyrir brjóstið á Inga Kristjáni og Sunnu. Skrifaði Ingi Kristján ofangreind ummæli á forsíðumyndina í Monitor.
Telja að „rapist“ sé fúkyrði í garð Egils
Sem fyrr segir voru dómararnir þrír ekki sammála í niðurstöðu sinni. Tveir þeirra töldu að ummæli Inga Kristjáns væru varin af 73. grein Stjórnarskrár Íslands, sem snýr að tjáningarfrelsi. Í dómi þeirra segir:
„Ef hin afbakaða mynd og ummælin „fuck you rapist bastard“ eru virt í heild eins og aðilar eru sammála um að skuli gert verður fallist á með héraðsdómi að hér hafi verið um að ræða fúkyrði stefnda í garð áfrýjanda í óvæginni þjóðfélagslegri umræðu, sem sá síðarnefndi hafði eins og fyrr greinir átt frumkvæði að, og þar með gildisdóm um áfrýjanda, en ekki staðhæfingu um að hann hafi gerst sekur um nauðgun.“
Sakarkostnaður var felldur niður, en samkvæmt úrskurði héraðsdóms átti Egill að greiða Inga 400 þúsund krónur.
Skilaði sératkvæði
Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari skilaði sératkvæði í málinu. Hann taldi að Ingi Kristján ætti að greiða Agli 200 þúsund krónur í sakarkostnað.
Ólafur vísaði til dæmis til vottorðs löggilts skjalaþýðanda sem sagði að ummæli Inga þýdd yfir á íslensku litu svo út: „Farðu til fjandans nauðgaraskepna“.
Hann segir einnig í sínu sératkvæði:
„Á hinn bóginn er ég öndverðrar skoðunar við meirihluta dómenda um að líta beri á ummælin „Fuck you rapist bastard“ í því samhengi að myndin sem þau eru rituð undir dragi úr alvarleika þeirra, en eins og áður greinir er um að ræða andlitsmynd af áfrýjanda sem stefndi hefur teiknað á krossmark á hvolfi og jafnframt ritað þar orðið „AUMINGI“.“
Dóminn í heild sinni má lesa hér.