Enski boltinn

Mikilvægt sigurmark hjá Austin | Loksins tapaði Newcastle

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sjö leikjum í ensku úrvalsdeildinni er lokið.

Arsenal vann góðan sigur á West Bromwich Albion, Manchester United vann öruggan sigur á Hull City, Glen Johnson tryggðu Liverpool sigur á Stoke og Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp mark Swansea í jafntefli gegn Crystal Palace.

QPR vann mikilvægan sigur á Leicester City í botnbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Leikurinn, sem fór fram á Loftus Road, var hinn fjörugasti, en voru fimm mörk skoruð.

Argentínumaðurinn Esteban Cambiasso kom Leicester yfir strax á 4. mínútu og þannig var staðan fram á 37. mínútu þegar Wes Morgan, fyrirliði gestanna, skoraði sjálfsmark.

Leroy Fer sá svo til þess að QPR færi með forystu inn í leikhléið þegar hann skoraði á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Leicester-menn jöfnuðu á 67. mínútu með marki Jeffrey Schlupp, en aðeins sex mínútum síðar tryggði Charlie Austin QPR sigurinn með sínu sjötta deildarmarki í vetur.

Vinstri bakvörðurinn Aaron Cresswell reyndist örlagavaldurinn í viðureign West Ham og Newcastle United á Upton Park, en hann skoraði eina mark leiksins á 56. mínútu.

Moussa Sissoko, hinn öflugi leikmaður Newcastle, fékk tvær áminningar með skömmu millibili í seinni hálfleik og var rekinn út af.

West Ham er í 5. sæti með 21 stig, tveimur fleiri en Newcastle sem var búið að vinna fimm leiki í röð fyrir leikinn í dag.

Danny Ings kom í veg fyrir að Aston Villa fagnaði sínum fyrsta sigri síðan 13. september, þegar hann skoraði fyrir Burnley úr vítaspyrnu þremur mínútum fyrir leikslok í leik liðanna á Turf Moor.

Joe Cole kom Villa yfir í fyrri hálfleik með sínu fyrsta marki á leiktíðinni, en er aðeins þriðji leikmaður Villa sem hefur skorað í deildinni í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×