Innlent

Nýjasti milljónamæringur Íslands fundinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vinningsmiðinn var keyptur í Fjarðarkaupum í Hafnarfirði.
Vinningsmiðinn var keyptur í Fjarðarkaupum í Hafnarfirði. Vísir/Getty
Íslensk Getspá hefur fundið nýjasta milljónamæring landsins. Sá datt í lukkupottinn á laugardaginn þegar hann vann fyrsta vinning í lottóinu. Varð hann 49 milljónum króna ríkari.

Inga Huld Sigurðardóttir, markaðsstjóri Íslenskrar getspár, staðfesti í samtali við Vísi að vinningshafinn hefði fundist fyrr í dag. Nánar vildi hún ekki greina frá högum vinningshafans að svo stöddu.

Vinningsmiðinn var keyptur í Fjarðarkaupum í Hafnarfirði. Milljónamæringurinn nýskipaði var sá eini sem var með allar tölurnar réttar.



Uppfært klukkan 15

Það voru pollróleg eldri hjón sem unnu milljónirnar 49. Hjónin hafa ákveðið að hluti vinningsins fer til líknarmála. Íslensk getspá sendi frá sér fréttatilkynningu sem sjá má hér að neðan.

„Það voru pollróleg eldri hjón sem mættu á skrifstofu Íslenskrar getspár í morgun með Lottóvinningsmiðann góða sem var keyptur í Fjarðarkaupum í síðustu viku. Miðinn sem er 5 raðir og kostaði 650 krónur skilaði eigenda sínum 48.912.810 skattfrjálst. 



Hjónin eru komin á eftirlaun og spila nánast alltaf með í Lottó. Því ætlaði eiginkonan ekki að trúa manni sínum er hann tjáði henni að hann héldi að þau hefðu unnið stóra vinninginn í Lottó. Það var ekki fyrr en þau fóru á netið og sáu að vinningsmiðinn hafi verið seldur í Fjarðarkaupum að þau trúðu þessum góðu fréttum.

Þau segjast nú vera búin að tryggja sér áhyggjulaust ævikvöld og þurfa nú ekki lengur hugsa um að spara og geyma að kaupa hluti fram yfir næstu mánaðarmót. Hjónin hafa ákveðið að hluti vinningsins fer til líknarmála enda eru líknarmál þeim afar hugleikin og þau vita og þekkja af eigin raun að þörfin er mikil. Starfsfólk Íslenskrar getspár óska vinningshöfunum innilega til hamingju.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×