Innlent

Gert að sæta nálgunarbanni gagnvart barnsmóður og dætrum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ógn er talin stafa af manninum.
Ógn er talin stafa af manninum. vísir/getty
Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmanni verði gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni gagnvart fyrrum eiginkonu sinni og tveimur dætrum. Lögregla telur ógn stafa af manninum. Honum er bannað að koma nær heimili þeirra en fimmtíu metra og má hann ekki setja sig í samband við þær með neinum hætti.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að maðurinn hafi setið í kringum heimili fyrrum eiginkonu sinnar og dætra og valdið miklu ónæði í skóla og frístundaheimili eldri dótturinnar þar sem hann sæki mjög stíft í að hitta hana fyrir. Sú hegðun hafi valdið dótturinni mikilli vanlíðan og hafa skólayfirvöld lýst yfir miklum áhyggjum vegna þessa. Stúlkan sagði í samtali við barnaverndarfulltrúa að hún óttist föður sinn og að hann hafi sagt við hana að hann ætli að taka hana með sér. Þá hafi dóttirin óttast að hann myndi gera móður hennar eitthvað illt.

Í júlí í fyrra sætti maðurinn sex mánaða nálgunarbanni og hefur konan tvívegis lagt fram beiðni um nálgunarbann síðan þá. Fyrst í júní síðastliðnum og aftur í september en beiðni hennar var þá hafnað.  Hjónin fyrrverandi voru með sameiginlega forsjá en dæturnar áttu að eiga lögheimili hjá móður sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×