Innlent

Segir lög um símhleranir ekki standast mannréttindasáttmála Evrópu

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Orator, félag laganema við Háskóla Íslands, stóð í gær fyrir málþingi undir yfirskriftinni: „Símhlustanir lögreglu - Hverjar eru reglurnar og er framkvæmd í samræmi við lög?.“ Símon Sigvaldason, héraðsdómari, Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara, og Reimar Pétursson, hæstaréttarlögmaður fluttu erindi á málþinginu.

Fram kom í máli Reimars að hann teldi vafasamt að ákvæði íslenskra laga um símhlustanir, stæðust ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs. Mannréttindadómstóll Evrópu hafi í dómum sínum gert kröfu til þess að lög sem heimila símhlustun, skilgreini við hvaða aðstæður gegn hverjum og hvernig eigi að vinna úr gögnum við símhlustun.

„Íslensku lögin, þau eru afskaplega opin og fábrotin um öll þessi atriði. Það er vafasamt að þau fullnægi þessum kröfum. Þau veita dómurum óheft mat nánast um hvenær símhlustun fer fram og síðan er það þannig að það er afskaplega brotakennt um fyrirmæli hvernig á að standa að þessu,“ segir Reimar.

Kolbrún Benediktsdóttir segir að taka megi undir þessi rök Reimars að mörgu leyti.

„Ákvæðin eru kannski ekki mjög ítarleg í íslensku lögunum,“ segir Kolbrún. Hún segir þó það vera hlutverk dómstóla að skera úr um það hvort almenn lög brjóti gegn mannréttindasáttmála Evrópu.

„Hins vegar er það löggjafinn sem þarf að skoða þessa dómaframkvæmd mannréttindasáttmálans og taka ákvörðun um það hvort að ástæða sé til að gera breytingu á íslensku lögunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×