Innlent

Missti tvær bestu vinkonur sínar: „Heppin að vera á lífi“

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Ég og bestu vinkonur mínar höfðum ákveðið að fara út að skemmta okkur um kvöldið en það eina sem ég man eftir þessum degi var að við höfðum farið saman í partý og ég man ekkert eftir því að hafa farið upp í bílinn. Ég vaknaði síðan bara tólf dögum seinna, ný komin úr dái, og þá var búið að jarða tvær bestu vinkonur mínar.“

Svona hófst ræða Ásu Sigurjónu Þorsteinsdóttur, sem lenti í alvarlegu umferðarslysi fyrir nokkrum árum á sérstakri athöfn til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðarslysum sem haldin í gær við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.

Gestir þögðu í mínútu til minningar um hina látnu auk þess sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flutti ávarp.

„Ég man ekkert eftir þessu, bara það sem fólk er búið að segja mér, en ég veit alveg að við vorum öll undir áhrifum áfengis, þar á meðal bílstjórinn líka og hann var sá eini sem var í bílbelti og slasaðist í raun ekki neitt. Ég er bara heppin að vera á lífi í dag, því ég var ekki í bílbelti.“

Ása segir að hún eigi ennþá erfitt með að halda einbeitingu og slysið hafi haft gríðarleg áhrif á líf hennar.

„Ég gleymi fljótt hlutum og sem dæmi var ég búin að gleyma því að ég átti að mæta hingað. Ég reyni bara alltaf mitt besta og tek bara einn dag í einu. Þetta verður alltaf erfitt fyrir mig. Það er ótrúlegt hvað einn dagur, sem átti bara að vera venjulegur, getur allt í einu breyst í martröð.“

Sams konar athöfn er haldin víðs vegar um heiminn á þessum degi að tilhlutan Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×