Innlent

Förguðu eftirlíkingum af Egginu

Atli Ísleifsson skrifar
Húsgögnin komu hingað til lands í tveimur gámum frá Kína sumarið 2011.
Húsgögnin komu hingað til lands í tveimur gámum frá Kína sumarið 2011. Mynd/Tollstjóraembættið
Rúmlega fimmtíu stykkjum af húsgögnum var fargað fyrr í vikunni undir eftirliti embættis Tollstjóra. Þar reyndust vera eftirlíkingar af hönnunarfyrirmyndum á ferð, meðal annars eftirlíkingar af stólunum Egginu, Svaninum og Corona,  og svo Arco lampanum. Í umræddri sendingu voru einnig eftirlíkingar af Cassina LC stólnum, sófum og borði.

Í tilkynningu frá Tollstjóra segir að húsgögnin hafi komið hingað til lands í tveimur gámum frá Kína sumarið 2011. „Tollstjóri frestaði afgreiðslu varanna þar sem talið var að um eftirlíkingar af frumhönnun velþekktra erlendra hönnuða væri að ræða. Erlendir rétthafar stefndu innflytjandanum síðan fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem kvað upp þann dóm fyrr á árinu 2014 að húsgögnin, sem voru í vörslu Tollstjóra skyldu afhent rétthöfum til eyðingar og þeim eytt undir eftirliti embættis Tollstjóra,“ segir í tilkynningunni.

Innflytjandinn var dæmdur til  að greiða 1,5 milljónir í  málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×