Innlent

Kemur fyllilega til greina að kaupa skattaupplýsingar

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Greint var frá því í Fréttablaðinu á föstudag að embætti skattrannsóknarstjóra hefði fengið send sýnishorn af gögnum með nöfnum Íslendinga sem tengjast skattaskjólum og gögnin bendi til þess að hundruð Íslendinga hafi gerst sekir um skattaundanskot. Skattrannsóknarstjóri fékk gögnin send frá erlendum aðila sem vill selja þau og hefur embættið sent fjármálaráðuneytinu erindi vegna málsins þar sem tekin verður ákvörðun um hvort þau verði keypt.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, var gestur Björns Inga Hrafnssonar í þættinum Eyjan á Stöð 2 í dag. Aðspurður um hvort til greina komi að kaupa þessi gögn sagði Bjarni.

„Við viljum taka því mjög alvarlega og skoða það mjög vandlega að hvaða marki við getum nýtt slíkar upplýsingar. Mér finnst það koma fyllilega til greina að skoða það. Það kemur alveg til álita. Við þurfum að tryggja hins vegar að það sé gert með lögmætum hætti,“ segir Bjarni.

Bjarni vísaði til þess að bandarísk stjórnvöld keyptu nýverið gögn af þessum toga fyrir háar fjárhæðir og sagði íslensk stjórnvöld þurfa að nota öll tiltæk ráð til þess að uppræta skattsvik.

„Þegar við erum með upplýsingar eða leiðir til að uppræta skattsvik, þá þurfum við að grípa tækifærið. En í þessu tiltekna máli erum við að skoða hvort sá möguleiki sé fyrir hendi og ég vil auðvitað að það liggi fyrir að við séum ekki að greiða fyrir einskyns nýtar upplýsingar,“ sagði Bjarni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×