Innlent

„Þetta er helvíti skítt“

Samúel Karl Ólason skrifar
Bílinn er mjög áþekkur þessum bláa, en á honum var þó toppgrind. Til stóð að gera hann upp eins og gömlu þjónustubíla FÍB.
Bílinn er mjög áþekkur þessum bláa, en á honum var þó toppgrind. Til stóð að gera hann upp eins og gömlu þjónustubíla FÍB. Mynd/FÍB
Númeralausum Land Rover jeppa var stolið af bílastæði Félagi íslenskra bifreiðaeigenda um helgina. Talið er að jeppanum hafi verið stolið á milli laugardagskvöldsins 6. september og mánudagsmorgunsins 8. september.

„Þetta er helvíti skítt. Ég bara skil ekki hvernig mönnum dettur í hug að fara þarna inn og hirða þetta,“ segir Stefán Ásgrímsson, ritstjóri hjá FÍB.

Á vef FÍB segir að bíllinn sé blár að lit með hvítu húsi og sé árgerð 1967. Fyrir nokkru var bílinn gefinn FÍB og til stóð að gera hann upp og útbúa hann og merkja sem þjónustubíl FÍB. Eins og þeir voru á árunum 1960-70.

„Hann er enn ófundinn. Okkur er búið berast vísbendingar og ein segir til um að hann hafi sést á vörubílspalli austur í Rangárvallarsýslu á sunnudaginn, á austurleið,“ segir Stefán.

Annað framdekkið á bílnum er sprungið og varadekkið loftlaust, svo Stefán telur ljóst að bílinn hafi verið tekinn með einhverju flutningstæki. Nágrannar FÍB hafa verið beðnir um að skoða myndbandsupptökur öryggiskerfa, til að athuga hvort einhverjar mannaferðir sjáist á þeim.

„Bíllinn er gefinn okkur með góðum hug. Hann er heillegur á var í eigu tveggja Álftagerðisbræðra. Við vorum að fara að gera hann upp og við eigum allar gömlu merkingarnar. Markmiðið var að koma honum í gagnið fyrir næsta stórafmæli,“ segir Stefán.

FÍB var stofnað árið 1932.

Bílasafnari frá Suðurlandi ætlaði að taka þátt í uppgerð bílsins og hafa hann svo í vörslu sinni. FÍB fengi svo afnot af honum við ýmis tilefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×